Svefnvandi meira en klukka

Með fækkun bjartra stunda að afloknum skóla- og vinnudegi má …
Með fækkun bjartra stunda að afloknum skóla- og vinnudegi má til dæmis telja líklegt að hreyfing ungmenna minnki. Getty Images

Tryggvi Helgason barnalæknir segir að ekki sé annað að heyra af umræðunni en að svefnvandi unglinga væri auðleyst mál með klukkubreytingu og í raun val um hvort við fræddum þjóðina um mikilvægi svefnsins eða bara einfaldlega breyttum klukkunni og þá væri sá vandi úr sögunni.

Tryggvi fjallar um tilfærslu á klukkunni í grein í Læknablaðinu. Hann segir að það þurfi ekki að koma á óvart þar sem hér er ýmist of lengi dimmt eða albjart marga mánuði á ári.

Einhliða framsetning starfshóps ráðherra

„Nýlega skipaði ráðherra starfshóp um þetta málefni og var skýrsla starfshópsins góð og ítarleg um kosti breyttrar klukku. Hins vegar var mjög lítið fjallað um neikvæð áhrif breytingarinnar og var þar til dæmis enginn fulltrúi frá íþróttahreyfingunni sem hefur ítrekað gert athugasemdir við fyrri frumvörp er varða breytingu á klukkunni.

Framsetning starfshóps ráðherra var einhliða og mikið gert úr kostum klukkubreytingar en lítið úr göllum. Dæmi um þetta er yfirlitstafla þar sem bornir eru saman kostir og gallar valkostanna sem nefndin leggur fram. Sú leið sem nefndin leggur til er sett fram á litríkum grunni en hinar leiðirnar í gráu. Þar er talað um að klukkubreyting geti lagað of stuttan svefn og í mörgum atriðum hvaða breytingar gætu orðið ef svefn þjóðarinnar lengist. Hins vegar er aðeins nefnt í einu atriði að minna dagsljós gæti minnkað hreyfingu en ekkert um hvaða afleiðingar það hefur.

Með fækkun bjartra stunda að afloknum skóla- og vinnudegi má til dæmis telja líklegt að hreyfing ungmenna minnki. Hún er nú þegar í harðri samkeppni við aðra afþreyingu en engin áhersla var á þetta atriði í skýrslunni og ekki heldur í umfjöllun fjölmiðla. Þó eru til rannsóknir sem benda til slíkra áhrifa. Má nefna samantektarrannsókn úr stórum gagnagrunni hreyfimæla í 9 löndum þar sem niðurstaðan er að aukin dagsbirta í formi sumartíma sé líkleg til að auka hreyfingu ungmenna og nýlega innlenda rannsókn, sem skýrsluhöfundar áðurnefnds starfshóps vitnuðu til varðandi svefninn, þar sem tengsl fundust milli dagsbirtu og hreyfingar unglinga hér á landi, sérstaklega stúlkna,“ segir í grein Tryggva. 

Upplýsingar sem byggja á vísindalegum rannsóknum eiga undir högg að sækja

Það sem svo gerist í kjölfarið er að þessi einhliða framsetning litar fjölmiðlaumræðuna, segir hann. „Að það væri bara fínt að leysa of stuttan svefn hjá heilli þjóð svona. Fulltrúarnir í ráðgjafahópi ráðherra hafa sýnt með sínum fyrri skrifum að þeir gera sér grein fyrir að of stuttur svefn er flóknara vandamál en svo, en fjölmiðlaumræðan var á þennan veg,“ skrifar Tryggvi í Læknablaðið.

„Í góðu og opnu samfélagi sem breytist jafn hratt og okkar, þar sem upplýsingar berast hratt á milli manna, eiga upplýsingar sem byggjast á vísindalegum rannsóknum undir högg að sækja. Þær verða til á lengri tíma og erfitt getur verið að láta þær berast þangað sem þörf er á. Læknablaðið hefur að undanförnu blandað sér í vísindalega umræðu um ýmis mál í samfélaginu og er það vel. Þannig getur gagnrýnið vísindarit átt þátt í að efla vísindalega umræðu um þær breytingar sem gera þarf til að bæta samfélagið okkar enn frekar.

Á hvorn veginn sem ákvörðunin fellur er mikilvægt að fylgst verði með afleiðingunum og að yfirvöld setji sér mælikvarða á hvort sá árangur næst sem að er stefnt. Ekki er síður mikilvægt að mæla hverju er kostað til að sá árangur náist. Annars erum við meira í skollaleik þar sem samfélagið er með bundið fyrir augun. Best er þegar vísindin og samfélagið eru í markvissum eltingarleik og skiptast á að ver'ann þegar annað nær að klukka hitt,“ segir í grein Tryggva Helgasonar en hana er hægt að lesa í heild hér.

Aðeins er nefnt eitt dæmi um að minna dagsljós gæti …
Aðeins er nefnt eitt dæmi um að minna dagsljós gæti minnkað hreyfingu en ekkert um hvaða afleiðingar það hefði í för með sér. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert