„Við gefumst ekki upp“

Frá útskrift Davíðs Karls Wiium, bróður Jóns Þrastar. Með þeim …
Frá útskrift Davíðs Karls Wiium, bróður Jóns Þrastar. Með þeim á myndinni eru systur Jóns Þrastar: Þórunn og Anna, og bróðir hans, Daníel. Ljósmynd/Facebook

Fjöl­skylda og vin­ir Jóns Þrast­ar Jóns­son­ar, sem hvarf spor­laust í Dublin 9. fe­brú­ar, halda enn í vonina um að hann finnist og eru þakklát fyrir umfangsmikla leit sem fram fór á sunnudag með aðstoð írsku björgunarsveitarinnar (e. Civil defence). Fjölskyldan hafði óskað eftir þátttöku hennar frá því leitin hófst fyrir tæpum mánuði.

Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, segir það mikilvægt að hafa fengið björgunarsveitirnar til að leita á afmarkaða leitarsvæðinu, jafnvel þótt ekkert hafi fundist. „Þó að við höfum leitað þarna sjálf skipti það máli að fá fagmenn til að staðfesta að það sé ekkert þarna á svæðinu.“

Næstu skref hjá lögreglu og fjölskyldu Jóns Þrastar er að fylgja eftir ábendingu sem barst um helgina um að Jón Þröstur hafi farið í leigubíl. Það hefur ekki fengist staðfest enn þá. „Við munum herja á leigubíla og svæði sem þeir eru á í miðbænum. Svo erum við að leggja grunn að annarri leit, en það er ekki alveg komið á hreint hvernig hún verður,“ segir Davíð Karl.

Vonast eftir áframhaldandi aðstoð björgunarsveitarinnar

Davíð Karl fór út fljótlega eftir að leitin að Jóni Þresti hófst. Hann er staddur hér á landi þessa stundina en fer aftur út til Dublin á morgun. „Ég kom heim rétt fyrir helgi til að hitta börnin mín og aðeins til að láta sjá mig í vinnunni,“ segir hann og viðurkennir að síðustu vikur hafi tekið gríðarlega á. Móðir og systur Jóns Þrastar eru á Írlandi og Davíð Karl segir að fjölskyldan muni halda ótrauð áfram í leitinni að Jóni Þresti. 

„Ef þetta dregst á langinn og fer ekki að leysast þurfum við að gera þetta skipulega og skiptast á að vera úti. Við höldum áfram eins lengi og þarf, við gefumst ekki upp, það er alveg á hreinu.“  

Jóns Þrastar hefur verið saknað í tæpan mánuð og leit …
Jóns Þrastar hefur verið saknað í tæpan mánuð og leit hefur engan árangur borið, enn sem komið er. Ljósmynd/Facebook

Fyrsta verkefni Davíðs Karls þegar hann kemur til Dublin á morgun er að fara á stöðufund með lögreglu og yfirmanni írsku björgunarsveitarinnar. Fjölskyldan vonast eftir að njóta aðstoðar björgunarsveitarinnar í næstu skipulögðu leit en til þess þarf samþykki lögreglu.

„Leitarsvæðið stækkar gífurlega og við þurfum meiri upplýsingar, hann gæti hafa farið hvert sem er. Um leið og við fáum góðar ábendingar sem geta varpað ljósi ferðir hans eða staðsetningu munum við óhikað fara aftur af stað.“

Fjölskyldan heldur uppi Facebook-síðu þar sem fluttar eru fregnir af leitinni að Jóni Þresti og birtu þau nýlega fleiri myndir af Jóni Þresti í faðmi fjölskyldu og vina.

Jón Þröstur í fríi með dætrum sínum fyrir nokkrum árum.
Jón Þröstur í fríi með dætrum sínum fyrir nokkrum árum. Ljósmynd/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert