Grunur leikur á að einstaklingur með mislingasmit hafi verið á leikskólanum Tjarnarskógi á Egilsstöðum á mánudag og þriðjudag. Sigríður Herdís Pálsdóttir leikskólastjóri staðfestir í samtali við mbl.is að grunur leiki á smiti á Skógarlandsstarfsstöð leikskólans.
Hún segir að staðfest fáist á morgun hvort um mislingasmit sé að ræða.
Leikskólayfirvöld hafa því beðið þau börn og starfsmenn sem ekki hafa verið bólusett, eða áður fengið mislinga, og sem voru á Skógarlandi þessa daga að halda sig heima þar til ljóst verður hvort um mislinga sé að ræða. Reynist einstaklingurinn vera með mislinga framlengist beiðnin um heimaveru í tvær og hálfa viku.
Sigríður segir þetta þó ekki taka til margra barna, þar sem flest barna á leikskólanum séu þegar orðin tveggja ára og hafi verið bólusett.
Er þetta er annar leikskólinn á Austurlandi þar sem grunur er um mislingasmit, en í gær voru öll börn og starfsmenn leikskólans Lyngholts á Reyðarfirði beðin að halda sig heima við í tvær og hálfa viku eftir að staðfest var að maður með mislingasmit kom í leikskólann meðan hann var smitandi.
Þeir sem telja sig eða sína vera smitaða eru beðnir að fara ekki á heilbrigðisstofnun, heldur hringja í síma 1700 þar sem er sólarhringsvakt.