Um 500 símtöl bárust Læknavaktinni í gær vegna fyrirspurna um mislinga og möguleg mislingasmit. Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Læknavaktarinnar, segir í samtali við mbl.is að símtalafjöldinn hafi aukist jafnt og þétt eftir því sem leið á daginn og að símtölin hafi verið óvenjumörg samanborið við hefðbundinn dag á Læknavaktinni.
Ekkert nýsmit var skráð í gær og ekkert hefur verið skráð það sem af er þessum degi. Nokkrir tugir einstaklinga eru enn taldir í smithættu og eru undir eftirliti sóttvarnalæknis. Líkur eru á að nýsmit geti komið fram á næstu tíu dögum.
Tvö mislingasmit hafa fengist staðfest hjá fullorðnum einstaklingum, en hvorugur þeirra hefur þurft að leggjast inn á spítala. Sá fyrri smitaðist erlendis en hinn í flugvél Air Iceland Connect á milli Reykjavíkur og Egilsstaða 15. febrúar síðastliðinn. Tvö börn sem voru um borð í flugvélinni smituðust einnig. Annað þeirra, sem er 11 mánaða gamalt, liggur í einangrun á Barnaspítala Hringsins. Hitt barnið er 18 mánaða og hefur það ekki þurft að leggjast inn á spítala.
Gunnar Örn segir að viðbragðsaðilar séu í nánu sambandi og upplýsingaflæðið sé stöðugt. Til stendur að efna til samráðsfundar á morgun með fulltrúum embættis landlæknis, heilsugæslunnar, Landspítala og Læknavaktarinnar þar sem næstu skref verða ákveðin og fer það eftir því hvort fleiri nýsmit greinist.