Í dag staðfesti Veirufræðideild Landspítala nýtt mislingatilfelli og er það fimmta tilfellið sem staðfest hefur verið frá því 18. febrúar sl. Umræddur einstaklingur komst í snertingu við þann aðila sem kom með flugi til Egilsstaða þann 15. febrúar og greindist síðar með mislinga.
Þetta kemur fram á vef Landlæknis.
Sigríður Herdís Pálsdóttir, leikskólastjóri á Tjarnarskógi, staðfestir í samtali við mbl.is að fimmti einstaklingurinn sé starfsmaður á leikskólanum. Hún segir starfsmanninn sem um ræðir ekki vera í miklum samskiptum við börnin. „Þessi starfsmaður og svo sex starfsmenn sem eru ekki vissir um bólusetningu, þeir voru allir heima í dag,“ segir Sigríður og kveður tvo þeirra ekki hafa átt að mæta til vinnu fyrr en eftir helgi.
„Þeir fara allir í bólusetningu seint í kvöld og svo eru þeir heima,“ bætir hún við.
Sigríður segir starfsmanninn sem fékk mislingana vera nokkuð lasin, auk þess að þjást af samviskubiti yfir að hafa verið með mislinga á leikskólanum. Starfsmaðurinn hafi þó ekkert geta gert við þessu, né hafi viðkomandi geta vitað af veikindunum. Segir Sigríður foreldra á Egilsstöðum hafa sýnt málinu mikinn skilning.
„Það eru öll börn tveggja ára í þessu húsi og eiga því að vera bólusett og þau sem eru á yngri barnadeildinni eru í öðru húsi og eiga að vera alveg vernduð og þurfa því ekki að hafa neinar áhyggjur. Það er þó búið að hafa samband við þá sem ekki var búið að bólusetja, þannig að þetta er allt í góðu ferli.“
Sóttvarnalæknir hefur gripið til varúðarráðstafana og bólusetning gegn mislingum verður í boði um helgina fyrir forgangshópa á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi.
Forgangshópar eru:
Áfram eru veittar upplýsingar vegna mislinga í síma 1700.
Fréttin hefur verið uppfærð.