„Ég er með svo yndislegt starfsfólk og hef auk þess fengið aðstoð frá foreldrum þannig þetta hefur bara verið þægilegur dagur,“ segir Sigríður Herdís Pálsdóttir leikskólastjóri á leikskólanum Tjarnaskógi á Egilsstöðum.
Grunur leikur á að einstaklingur með mislingasmit hafi verið í Skógarlandi, annarri af tveimur byggingum leikskólans, á mánudag og þriðjudag og mun staðfesting þess efnis berast frá sóttvarnalækni síðdegis.
Leikskólayfirvöld báðu því þau börn og starfsmenn sem ekki hafa verið bólusett, eða áður fengið mislinga, og sem voru á Skógarlandi þessa daga að halda sig heima þar til ljóst verður hvort um mislinga sé að ræða.
Engin börn þurftu að vera heima að sögn Sigríðar, en fjórir starfsmenn sem eru fæddir fyrir 1966 þurftu að vera heima, ýmist vegna þess að upplýsingar um bólusetningu liggja ekki fyrir eða óvíst var hvort viðkomandi hafi fengið mislinga.
Börnin sem eru undir tveggja ára eru í sér húsi og einstaklingurinn sem grunur leikur á að sé með mislingasmit hefur ekki farið í það hús og flest börnin sem þar dvelja eru auk þess bólusett. Því þurftu engin börn að vera heima.
Sigríður segir að starfið á leikskólanum hafi nánast gengið sinn vanagang það sem af er degi. Starfsviðtöl eru í grunnskólanum og því hafi sumir foreldrar komið seinna með börnin í leikskólann, sem Sigríður segir að hafi komið sér vel. „Svo eru búin að vera þessi venjulegu veikindi,“ segir Sigríður og því færri börn en vanalega á leikskólanum.
Líkt og áður segir skýrist það síðdegis hvort um mislingasmit sé að ræða. Ef svo reynist vera verður það fimmta smitið á innan við mánuði sem greinist hér á landi. „En við vonum að þetta sé bara einhver umgangspest, það eru ýmsar pestir í gangi,“ segir Sigríður.