Bólusetja gegn mislingum í dag

Börn eru yfirleitt bólusett hér á landi við mislingum við …
Börn eru yfirleitt bólusett hér á landi við mislingum við 18 mánaða aldur. AFP

Heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi bjóða í dag upp á bólusetningar gegn mislingum, en veirufræðideild Landspítalans staðfesti í gær fimmta mislingatilfellið.

Á höfuðborgarsvæðinu verður fyrirkomulagið þannig að þeim sem eru með börn á aldrinum 6-18 mánaða er ráðlagt að fara með börnin á heilsugæslustöð í sínu næsta nágrenni í dag, en opið verður frá kl. 12-15. Á morgun verður haldið áfram að bólusetja þennan hóp, en við bætast þá einnig foreldrar þeirra og óbólusettir einstaklingar fæddir eftir 1970.   

Byrjað var að bólusetja á Austurlandi í gær og í dag eru allir einstaklingar eldri en 6 mánaða og óbólusettir sem fæddir eru eftir 1970 hvattir til að mæta í bólusetningu, en bólusett verður á Egilsstöðum og Eskifirði frá kl. 10- 15 í dag. Þeir sem telja sig hins vegar hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling eru beðnir að koma í bólusetningu á bilinu frá  kl. 15:00-16:00.

Almenningi er bent á að skoða bólusetningaskírteini sín varðandi skráðar bólusetningar, en einnig  er hægt að hafa samband við netspjall heilsugæslunnar á vefslóðinni www.heilsuvera.is.

Áfram eru þá veittar upplýsingar vegna mislinga í síma 1700.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert