Tvö þúsund bólusett um helgina

Fjöldi fólks, bæði ungir og aldnir, lögðu leið sína á …
Fjöldi fólks, bæði ungir og aldnir, lögðu leið sína á heilsugæsluna Sólvangi í Hafnarfirði, til að fá bólusetningu gegn mislingum. Haraldur Jónasson/Hari

Allar heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins voru opnar í dag þegar bólusetningar gegn mislingum héldu áfram. Í gær voru börn á aldrinum 6-18 mánaða sett í forgang en í dag voru eldri óbólusettir einstaklingar einnig teknir inn. Í samtali við mbl.is segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH), að vel hafi gengið á öllum stöðvum.

Alls ekkert krísuástand

„Það fóru örugglega yfir þúsund skammtar [af bóluefni] í gær, og líklega álíka mikið í dag. Svo þessir tvö þúsund skammtar sem við fengum fyrir helgi eru að mestu leyti allir farnir út,“ segir Ragnheiður. Hún segir þó alls ekki nokkurt krísuástand vera í vændum, en bóluefni sé haldið eftir fyrir þau börn sem eiga bókaða tíma í ung- og smábarnavernd í vikunni. „Svo erum við að bíða eftir meira efni,“ bætir Ragnheiður við og nefnir að sóttvarnarlæknir hafi fyrir helgi gefið út að von væri á meira bóluefni í vikunni. 

Við dreifðum bóluefni á milli stöðva þegar við sáum hvar …
Við dreifðum bóluefni á milli stöðva þegar við sáum hvar það var búið og hvar var eitthvað eftir,“ segir Ragnheiður. Haraldur Jónasson/Hari

Uppfært 20.02

Fimm hundruð bólusett á Austurlandi

Eins og fyrir sunnan gengu bólusetningar vel á Austurlandi um helgina þar sem um fimm hundruð einstaklingar sóttu þjónustu heilsugæslustöðva til að láta bólusetja sig. Þetta segir Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem segir að stór hluti fólksins sem mætti í bólusetningu sé í hópi þeirra sem fæddir eru á árabilinu 1970-1980 og er ekki viss um sínar bólusetningar.

Hún segir að fyrir helgi hafi borist um þúsund skammtar af bóluefni og því séu um fimm hundruð skammtar enn til fyrir austan.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert