Settu bóluefni fyrir Ísland í forgang

Börn eru bólusett gegn mislingum.
Börn eru bólusett gegn mislingum. mbl.is/Hari

„Ég er mjög glaður að við gátum stutt samstarfsfélaga okkar í Vistor/Distica og íslensk stjórnvöld í að bregðast við faraldrinum,“ segir Andreas Daugaard Jørgensen, framkvæmdastjóri lyfjafyrirtækisins MSD, við mbl.is. Fyrirtækið framleiðir bóluefni gegn mislingum og er eitt af fjölmörgum útibúum frá einu stærsta lyfjafyrirtæki heims.

Athygli hefur vakið hversu stór skammtur af bóluefni gegn mislingum kom til landins, hversu fljótt hann barst hingað og komst í dreifingu. 

Helsta áskorunin við framleiðslu bóluefna er að það tekur mörg ár að framleiða þau. „Þetta hefur í för með sér að það er ekki hægt að auka við framleiðsluna á skömmum tíma ef það skyldi brjótast út faraldur. Hins vegar forgangsröðum við alltaf svo unnt sé að bregðast við neyðartilvikum eins og faraldri,“ segir Jørgensen. 

Í þessu tilviki var unnið náið með teymi sem heldur utan um markaðinn í Evrópu til að finna út hvaða birgðir af bóluefni hægt væri að senda til Íslands með hraði. „Með öflugu fraktflugi var hægt að senda bóluefni bæði frá Danmörku og Svíþjóð á skömmum tíma. Samstarfið við Vistor/Distica og íslensk stjórnvöld var ákaflega gott,“ segir Jørgensen.   

Ísland sett í forgang

Arnþrúður Jóns­dótt­ir, lyfjafræðingur og markaðsstjóri MSD í Vist­or, sem flytur lyfið inn, tek­ur í sama streng. „Þetta var strax sett í for­gang hjá öllum sem komu að verkefninu.  All­ir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að láta þetta ganga upp fyr­ir Íslend­inga,“ seg­ir Arnþrúður. 

Arnþrúður Jóns­dótt­ir lyfjafræðingur og markaðsstjóri MSD í Vist­or.
Arnþrúður Jóns­dótt­ir lyfjafræðingur og markaðsstjóri MSD í Vist­or. Ljósmynd/Aðsend

Hún seg­ir það einstaklega ánægjulegt og í raun magnað að tek­ist hafi að út­vega allt þetta magn af bólu­efni og fá það flutt til lands­ins á svona skömmum tíma. „Við erum eyja í Atlants­hafi og flutn­ing­ar til landsins eru ekki alltaf auðveld­ir,“ seg­ir Arnþrúður. Þetta megi þakka öfl­ugu og samhentu sam­starfi allra sem komu að mál­um. Það eru Vist­or sem er umboðsaðili MSD á Íslandi, Distica sem sá um dreif­ingu, Embætti sótt­varn­alækn­is, Lyfja­stofn­un og MSD í Dan­mörku. 

„Þegar það kom til lands­ins var því dreift af Distica af hví­líkri fag­mennsku. Að geta dreift 10 þúsund skömmt­um af bólu­efni um allt land eftir forskrift frá sóttvarnalækni á tveim­ur dög­um er af­rek. Það er ekki ein­falt að dreifa bóluefninu því það þarf að vera í kæli, tekur mjög mikið pláss og er flutt í sér­stök­um kæli­köss­um,“ seg­ir Arnþrúður og ít­rek­ar þakk­ir til allra og bæt­ir við: „Við get­um öll verið stolt af þessu sam­starfi. Það er lyk­ill­inn að því að þetta náðist.”

Andreas Daugaard Jørgensen.
Andreas Daugaard Jørgensen. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert