Pókerspilarar um heim allan eru beðnir um að vera á varðbergi í kjölfar hvarfs Jóns Þrastar Jónssonar.
Ekkert hefur spurst til Jóns Þrastar frá því 9. febrúar. Hann var staddur í Dublin á Írlandi og ætlaði að taka þátt í pókermóti í borginni þessa helgi.
Alþjóðlega póker-vefsíðan PokerScout biðlar til pókerspilara að vera vakandi þar sem þeir geta verið ákjósanleg skotmörk ræningja og þjófa þar sem þeir eru oftar en ekki með mikið reiðufé á sér. Pókerspilarar sem ferðast heimshorna á milli til að taka þátt í mótum ættu sérstaklega að vera á varðbergi.
Pókerspilurum er meðal annars ráðlagt að vera ekki með mikið reiðufé á sér í einu, forðast fáfarnar götur eftir að dimma tekur og að þiggja ekki far með ókunnugum. Þá er þeim ráðið gegn því að taka þátt í leynilegum pókermótum með ókunnugum.
Rúmur mánuður er liðinn frá því síðast sást til Jóns Þrastar, en það var í grennd við Highfield-sjúkrahúsið. Mögulega sást til hans setjast í bifreið og getur hann hafa farið hvert sem er innan Írlands.
Fjölskylda Jóns hefur haldið til á Írlandi frá því að leit að honum hófst og segist ekki ætla að yfirgefa landið fyrr en hann sé fundinn. Þá biðla þau til heimamanna um hjálp við leitina og hvetja fólk til þess að prenta út plaköt sem hafa verið gerð aðgengileg með Google Drive.
Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, sagði í samtali við Morgunblaðið í fyrradag að írska lögreglan vinni að því hörðum höndum að fara í gegnum þær vísbendingar sem hafa borist. Enn séu að berast ábendingar, auk þess sem Alþjóðalögreglan Interpol lýsti eftir Jóni í síðustu viku.
„Það er enginn uppgjafartónn þar alla vega, sem er gott. Við erum mjög vel upplýst um stöðu mála. Nú er kannski minna að gerast en fyrst, en það er alltaf eitthvað. Við bíðum bara og sjáum,“ sagði Davíð Karl.