Hjólin snúast á ný

Leikskólinn Lyngholt í Reyðarfirði er aftur orðinn fullmannaður.
Leikskólinn Lyngholt í Reyðarfirði er aftur orðinn fullmannaður. mbl.is/Golli

„Þetta var mjög erfitt. Ég er ótrúlega heppin og þakklát fyrir starfsfólkið. Þau stóðu sig svo vel öll sem eitt,“ segir Lísa Lotta Björnsdóttir, leikskólastjóri í Lyngholti á Reyðarfirði. Í gær sneru átta starfsmenn og 14 börn aftur í skólann eftir þriggja vikna einangrun vegna mislingasmits. 

Auk einangrunar átta starfsmanna settu veikindi starfsfólks strik í reikninginn. „Við vorum fyrst og fremst að tryggja öryggi barnanna en núna getum við haldið áfram kennslunni og tekið börn í aðlögun. Við aðlögum börn allt árið en þurfum að fresta því. Það var allt á „hold“,“ segir Lísa Lotta. Hún tekur fram að foreldrar barnanna hafi sýnt stöðunni fullan skilning og eiga þeir þakkir skildar.  

Skýr fyrirmæli og gott samstarf við heilbrigðisyfirvöld

Spurð hvort ótti hafi gripið um sig þegar grunur um mislingasmit kom upp segir hún ekki svo vera. „Nei. Við fórum eftir öllum fyrirmælum sóttvarnarlæknis og vorum í góðu sambandi við heilsugæsluna. Ef það voru einhverjar spurningar þá fengum við svör við þeim,” segir Lísa Lotta sem er ánægð með samstarfið. 

„Það eru allir á fullu í skipulögðu starfi með börnunum og ég get ekki misst neinn í símann,“ segir hún glaðlega spurð hvort einhver af þeim átta starfsmönnum leikskólans sé tiltækur í stutt spjall við mbl.is. Veðrið er gott á Reyðarfirði þennan morguninn og er dagurinn vel nýttur meðal annars til gönguferða um næsta nágrenni.  

Á leikskólanum Lyngholti eru 108 börn og þeim fjölgar og starfsmenn eru 35 talsins.

Faraldurinn líklega stöðvaður

Sóttvarnarlæknir telur að líklegast hafi tekist að stöðva mislingafaraldurinn að þessu sinni en liðnar eru 3 vikur frá síðasta hugsanlega smiti. Fjórir einstaklingar hafa greinst með staðfesta mislinga og þrír aðrir með svokallað væga mislinga („modified measles“), en það eru bólusettir einstaklingar sem hafa komist í tæri við smitaðan einstakling. Þessir einstaklingar fá vanalega væg einkenni og smita ekki aðra.

Börn yngri en 18 mánaða verða ekki bólusett. Bólusett verður samkvæmt fyrri áætlun, við 18 mánaða og 12 ára aldur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert