Lífsbjargandi meðferð LSH í heimsklassa

Inga Lára Ingvarsdóttir, sérnámslæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum, ásamt Tómasi …
Inga Lára Ingvarsdóttir, sérnámslæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum, ásamt Tómasi Guðbjartssyni, prófessor og yfirlækni á Landspítala. Mikill árangur hefur náðst í notkun ECMO-dælu við Landspítala. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Það sem gerir þetta merkilegt er að Landspítalinn er lítil stofnun á alþjóðlegan mælikvarða,“ segir Inga Lára Ingvarsdóttir, sérnámslæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg, í samtali við mbl.is um rannsókn á notkun ECMO-dælu við spítalann.

„Þetta er heldur þung og flókin meðferð, en þarna náum við samt árangri sem er nokkuð góður á þennan alþjóðlega mælikvarða,“ segir hún.

Um er að ræða sérhæfða lungnavél, sem hefur bæði gervilunga og hjartadælu og er einungis notuð í þeim tilfellum þegar sjúklingar eru komnir á endastig hjarta- eða lungnabilunar. Er meðferðin því ákveðið neyðarúrræði fyrir sjúklinga með lífshættulega öndunarbilun og er beitt í lífsbjargandi tilgangi.

Áður talið best á stærri sjúkrahúsum

Inga Lára segir rannsóknina sýna að smærri sjúkrahús geti náð árangri í notkun búnaðarins, en hefð er fyrir því einungis stærri einingar noti slíkt tæki þar sem það krefst mikillar sérhæfingar starfsfólks.

Hún segir þetta ekki síður vera vísbendingu um að starfsfólk Landspítalans hafi mikla hæfni til þess að afla sér mikla þekkingu á sérhæfðum meðferðum.

Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Acta Anaesthesiologica Scandinavicae.

Getum ekki reitt okkur á stærra sjúkrahús

„Reynt hefur verið víða að safna þessum tilfellum saman á stærri sjúkrahús. Þannig að ekki sé hvert og eitt lítið sjúkrahús að leggja í þessa meðferð. Við höfum ekki völ á því það er svo langt héðan til stærri sjúkrahúsa sem myndu þá veita þessa meðferð,“ útskýrir hún.

„Þess vegna höfum við boðið upp á þetta hér,“ segir Inga Lára og bætir við að það hafi verið hægt „fyrir tilstilli þess að fólk er vel menntað erlendis á stórum háskólasjúkrahúsum, bæði læknar og hjúkrunarfræðingar.“

Vélinni er gert að sinna hlutverki lungnanna og gerir lungunum kleift að hvílast, jafna sig og gróa, að sögn Ingu Láru sem bendir á að þessi meðferð verður sífellt algengari.

Rannsóknin tók til 17 sjúklinga sem fengu umrædda meðferð frá árinu 1991 til ársloka 2016. Ellefu sjúklingar lifðu meðferðina af og 10 þeirra lifðu fram að útskrift og voru þeir allir á lífi í lok árs 2017.

Starfsfólkið verðmætt

Inga Lára er fyrsti höfundur greinarinnar sem birt hefur verið, en Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala, stýrði rannsókninni.

Í samtali við mbl.is, segir Tómas gríðarleg verðmæti vera í starfsfólkinu þar sem tækið eitt og sér sé ekki nóg. Um er að ræða mjög flókna og krefjandi meðferð sem kallar á vel menntaðan og reynslumikinn mannauð.

Aðrir höfundar greinarinnar eru læknarnir Halla Viðarsdóttir, Martin Ingi Sigurðsson prófessor, Arnar Geirsson, Gunnar Mýrdal og Felix Valsson auk Líneyjar Símonardóttur, sérfræðings á hjarta- og lungnavél.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert