Miðlar segjast hafa upplýsingar um Jón

Tveir mánuðir eru frá því síðast sást til Jóns Þrastar …
Tveir mánuðir eru frá því síðast sást til Jóns Þrastar Jónssonar í Dublin á Írlandi.

Fjöldi miðla, spámanna og fólk sem telur sig búa yfir skyggnigáfu hefur sett sig í samband við fjölskyldu Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf í Dublin fyrir tveimur mánuðum. Fjölskylda Jóns Þrastar greinir frá þessu á Facebook þar sem fólk sem telur sig hafa upplýsingar um Jón Þröst „að handan“ er vinsamlegast beðið um að halda þeim út af fyrir sig þar sem það sé særandi fyrir fjölskylduna að fá upplýsingar af þessu tagi um Jón Þröst.

Fjölskyldan þakkar á sama tíma fyrir fjölmargar stuðningskveðjur og hvatningarorð sem hafa borist í gegnum Facebook-síðuna sem hafi skipt sköpum síðustu vikur á þessum erfiðu tímum.

Fjölskyldan segist bera virðingu fyrir trú og lífsskoðunum miðla en segja það erfitt að fá skilaboð á borð við að Jón Þröstur sé „fastur undir hnullungi í námu eða þaðan af verra“.

„Ef svo ólíklega vill til að við viljum aðstoð frá miðli eða einhverjum sem býr yfir skyggnigáfu eða yfirnáttúrulegum öflum, þá munum við leita til þeirra sjálf,“ segir í færslu fjölskyldunnar.

Í lok færslunnar biður fjölskyldan þá sem hafa upplýsingar um Jón í raunheimum að hafa tafarlaust samband við írsku lögregluna. „Sama hversu ómerkilegar þið haldið að upplýsingarnar séu, það gæti verið akkúrat það sem gæti fært okkur nær því að finna Jón,“ segir í færslunni.

Tveir mánuðir eru liðnir frá hvarfi Jóns Þrast­ar Jóns­son­ar í Dublin á Írlandi. Rann­sókn máls­ins hef­ur lítið sem ekk­ert miðað áfram frá því björg­un­ar­sveit kembdi leit­ar­svæði í borg­inni í byrj­un mars og ábend­ing barst um að Jón Þröst­ur hefði mögu­lega ferðast með leigu­bíl.

Síðast sást til Jóns Þrast­ar í Whitehall-hverf­inu klukk­an rétt rúm­lega ell­efu fyr­ir há­degi laug­ar­dag­inn 9. fe­brú­ar. Jón Þröst­ur lenti í borg­inni kvöldið áður en hann hvarf en hann ætlaði að taka þátt í pókermóti sem hófst á miðviku­deg­in­um í vik­unni á eft­ir.

Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, sagði í samtali við mbl.is í gær að staðan sé erfið þar sem lögreglan hafi litlar upplýsingar til að vinna úr. Þá sagði hann óviss­una sem fylgi hvarfi Jóns Þrast­ar hafa streitu­vald­andi áhrif á fjöl­skyld­una, sem ætli þó ekki að gef­ast upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert