Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem ákærður er fyrir brennu og manndráp á Selfossi 31. október sl. í tengslum við mikinn eldsvoða í íbúðarhúsi.
Maðurinn er til vara ákærður fyrir brennu og manndráp af gáleysi, en hann er grunaður um að hafa lagt eld að pappakassa og gardínum í stofu á neðri hæð íbúðarhússins og valdið eldsvoðanum sem hafði í för með sér almannahættu, vitandi af tveimur gestum í svefnherbergi á efri hæð hússins. Létust þeir í brunanum og húsið gjöreyðilagðist.
Landsréttur staðfesti úrskurðinn með vísan til forsendna úrskurðar Héraðsdóms Suðurlands, en meðal raka ákærða var að fyrri úrskurðir Landsréttar um gæsluvarðhald væru ekki gildir í ljósi niðurstöðu dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. mars sl. (í Landsréttarmálinu), þar sem sömu sjónarmið og þar hafi komið fram ættu við um skipun Ásmundar Helgasonar sem dómara í Landsrétt. Hann væri einn þeirra dómara sem kveðið hefðu upp fyrri gæsluvarðhaldsúrskurði yfir ákærða. Því bæri að láta hann lausan. Þessu hafnaði Landsréttur.