Aðalmeðferð í máli karlmanns sem ákærður er fyrir brennu og manndráp á Selfossi í 31. október síðastliðinn verður 6. júní. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir héraðssaksóknari. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn.
Maðurinn er til vara ákærður fyrir brennu og manndráp af gáleysi. Hann er grunaður um að hafa lagt eld að pappakassa og gardínum í stofu á neðri hæð íbúðarhúss og valdið þannig eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, vitandi af karlmanni og konu sem voru gestkomandi í svefnherbergi á efri hæð hússins er eldurinn magnaðist upp. Hafði eldurinn breiðst út um húsið þegar slökkvistarf hófst.
Afleiðingar þessa voru að parið lést af völdum kolmónoxíðeitrunar vegna innöndunar á reyk og húsið gjöreyðilagðist. Í ákæru segir enn fremur að ákærði hafi enga tilraun gert til að aðvara fólkið um eldinn eða koma því til bjargar áður en hann yfirgaf húsið.