Síðari hálfleikur í Landsrétti

Frá Miðhrauni í Garðabæ, skömmu eftir eldsvoðann í apríl í …
Frá Miðhrauni í Garðabæ, skömmu eftir eldsvoðann í apríl í fyrra. mbl.is/RAX

Lögmaður hóps fólks sem hefur krafist skaðabóta frá fyrirtækinu Geymslum vegna eldsvoðans í Miðhrauni í fyrra, reiknar með því að málinu sem tapaðist í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun verði áfrýjað til Landsréttar.

„Þetta er sennilega bara fyrri hálfleikur. Það verður sennilega látið reyna á þetta í Landsrétti,“ segir Guðni Á. Haraldsson lögmaður.

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Fyrirtaka í þremur málum sem snerust um bótakröfu fór fram í héraðsdómi í janúar. Krafist var samtals um 20 milljóna króna í skaðabætur. Að sögn Guðna var málskostnaður felldur niður í öllum þremur málunum í morgun. „Það bendir til þess að dómarinn hafi talið að menn hafi haft eitthvað til síns máls,“ segir hann.

Í dómi héraðsdóms kom fram að samningurinn sem fólkið gerði við Geymslur hafi verið húsaleigusamningur en ekki samningur um geymslu á búslóð. Guðni segir að þegar lög um þjónustukaup hafi verið samin á sínum tíma hafi verið sérstaklega tekið fram að þau ættu að ná yfir svokallaðar búslóðageymslur.

mbl.is/Eggert

„Við gátum ekki séð annað en að þetta væri bara búslóðageymsla enda voru þetta allt búslóðir. Þetta voru ekki fyrirtæki sem voru að geyma neitt þarna, þetta voru einstaklingar sem voru að geyma sínar búslóðir þarna af jafnmismunandi ástæðum og þeir voru margir,“ greinir hann frá.

Á næstunni verður fundað um framhaldið en í kringum 50 sams konar mál eru í biðstöðu þangað til ákvörðun verður tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert