Grænt ljós á framkvæmd við Hvalárvirkjun

Virkjunarsvæði fyrir Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. Mynd úr safni.
Virkjunarsvæði fyrir Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Sveitastjórn Árneshrepps samþykkti á fundi sínum í dag framkvæmdaleyfi fyrir fyrsta hluta virkjanaframkvæmda við Hvalárvirkjun. „Þetta er bara vegna rannsóknarvinnu,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, segir í samtali við mbl.is. Leyfið tekur m.a. framkvæmda við vegagerð að og um virkjunarsvæðið, brúargerðar yfir Hvalá, byggingu vinnubúða og fráveitu, sem og rannsókna á jarðfræðilegum þáttum.

Umsókn fyrir framkvæmdaleyfinu var upphaflega lögð fram í september í fyrra, en þar sem aug­lýs­ing á breyt­ing­um deili­skipu­lags vegna Hvalár­virkj­un­ar var birt í Lögbirtingarblaðinu tveimur dögum of seint þurfti hrepps­nefndin að taka málið fyr­ir að nýju. Framkvæmdaleyfisumsókn VesturVerks sem samþykkt var í dag er sú sama og lögð var fram þá.

Skili mánaðarlega vöktunaráætlun og umhverfisúttekt

Í samþykkt sinni setti sveitastjórnin þó skilyrði í framkvæmdaleyfið varðandi nýtingu ársetsnámu við Hvalá að vinnsla námunnar verði hafin sem fjærst vatnsborði og óraskað belti verði skilið eftir milli námu og vatnsbakka.

Þá er verktaka gert að skila sveitarfélaginu mánaðarlega vöktunaráætlun og umhverfisúttekt á framkvæmdatímanum og segir Eva þetta vera gert fyrir tilstilli náttúruverndarnefndar Árneshrepps, sem hafi tilgreint þessa þætti í sinni fundargerð.

Að sögn Evu var sveitastjórn einróma í samþykkt sinni á framkvæmdaleyfinu. Fram kemur í fundargerð að stjórnin telji fyrirhugaða framkvæmd vera í samræmi við Aðalskipulag Árneshrepps 2005-2025 og deiliskipulag vegna Hvalárvirkjunar, sem hreppsnefndin samþykkti í mars í ár og bíður nú auglýsingar, í samræmi við yfirferð Skipulagsstofnunar frá því í lok maí.

„Við samanburð á framkvæmd sem fyrirliggjandi umsókn lýsir og matsskýrslu vegna framkvæmdarinnar er sýnt að framkvæmdin varðar einungis hluta þeirrar framkvæmdar, þ.e. rannsóknir, s.s. á jarðfræðilegum þáttum, vegagerð, s.s vegum að og um virkjunarsvæði, brúargerð yfir Hvalá, efnistöku og efnislosun, byggingu fráveitu, öflun neysluvatns, uppsetningar vinnubúða og framkvæmda við verklok,“ segir í fundargerðinni frá því í dag.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps. Eva segi sveitastjórnina ekki vita hvenær …
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps. Eva segi sveitastjórnina ekki vita hvenær VesturVerk mun hefja framkvæmdir vegna Hvalárvirkjun nú þegar leyfi hefur verið veitt, né hve langan tíma rannsóknarvinnan muni taka. mbl.is/Golli

Varðar ekki byggingu virkjanamannvirkja eða breytingar á vatnafari

Hreppsnefndin hafi  kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar. Framkvæmdin sem sótt er um nú varði hins vegar ekki byggingu virkjunarmannvirkja eða breytingar á vatnafari og þess vegna hafi umfjöllun um álit Skipulagsstofnunnar „takmarkaða þýðingu við málsmeðferð nú“. Í  bæði aðal- og deiliskipulagi hafi hins vegar verið sérstaklega hugað að því „að draga úr raski ef horfið yrði frá byggingu virkjunar“.

Við breytingar á aðalskipulagi Árneshrepps og samþykkt deiliskipulags vegna rannsókna tengdum Hvalárvirkjun hafi farið fram umhverfismatsferli Hvalárvirkjunar og mótvægisaðgerðir vegnar framkvæmdarinnar verið útfærðar, til að mynda kröfur um frágang vega, skilmálar vegna verkloka og aðstöðu ef hætt yrði við að virkja.

„Árneshreppur hefur því tekið afstöðu til álits Skipulagsstofnunar við gerð nýrra skipulagsáætlana og þá m.a. horft til áherslna sem koma fram í álitinu,“ segir í fundargerðinni. Þá séu í  gögnum með framkvæmdaleyfisumsókninni gerð grein fyrir hvaða rannsóknir á vatnalífi, fuglalífi og skráning menningarminja hafa farið fram eftir gerð álits Skipulagsstofnunar. Með þessu hafi skilyrðum álitsins verið mætt.

Áhrif á ferðaþjónustu ekki jafn neikvæð og skipulagsstofnun telur

Hreppsnefndin segist enn fremur í afgreiðslu sinni ekki draga í efa helstu niðurstöður álits Skipulagsstofnunar. Þó telji nefndin áhrif á ferðaþjónustu og útvist ekki verða jafn neikvæð og tilgreint sé í áliti Skipulagsstofnunnar. Segir hreppsnefndin samgöngur enda geta eflst með framkvæmdunum og með þeim aðgengi að svæðum. Eins geti „ásýnd hluta framkvæmdasvæðis að loknum framkvæmdum haft svipmót óraskaðra svæða“.

Eva segi sveitastjórnina ekki vita hvenær VesturVerk mun hefja framkvæmdir nú þegar leyfi hefur verið veitt, né hve langan tíma rannsóknarvinnan muni taka. „Þetta er ekkert sem hlaupið er í,“ segir hún. „Það skýrist þó sjálfsagt þegar líður á þetta ár hve hratt hlutirnir geta gerst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert