„Bara verið að pissa á staurinn“

Sveit­ar­stjórn Árnes­hrepps samþykkti á fundi sín­um í gær fram­kvæmda­leyfi fyr­ir …
Sveit­ar­stjórn Árnes­hrepps samþykkti á fundi sín­um í gær fram­kvæmda­leyfi fyr­ir fyrsta hluta virkj­ana­fram­kvæmda við Hvalár­virkj­un. mbl.is/Golli

„Það er algjörlega ónauðsynlegt að fara í þessar framkvæmdir fyrir rannsóknir,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, um þá ákvörðun sveit­ar­stjórnar Árnes­hrepps á fundi sín­um í gær að samþykkja fram­kvæmda­leyfi fyr­ir fyrsta hluta virkj­ana­fram­kvæmda við Hvalár­virkj­un.

Auður segir það ekki koma Landvernd á óvart að leyfið hafi verið veitt, þar sem langt sé síðan sveitarfélagið lýsti þeim vilja sínum yfir. Leyfið sem Árneshreppur veitti VesturVerki tek­ur til rann­sókn­a á jarðfræðileg­um þátt­um, vega­gerð við veg­i að og um virkj­un­ar­svæði, brú­ar­gerð yfir Hvalá, efn­is­töku og efn­is­los­un, bygg­ingu frá­veitu, öfl­un neyslu­vatns og upp­setn­ing­u vinnu­búða.

„Þetta er hins vegar mjög sorglegt í ljósi þeirra nýju upplýsinga og gagna sem hafa komið fram síðastliðið ár,“ segir Auður. Máli sínu til stuðnings bendir hún á að samfélög geti grætt mikið, bæði fjárhagslega og félagslega, á að hafa þjóðgarða innan sín svæðis. Eins hafi Náttúrufræðistofnun sýnt fram á hve mikil náttúruverðmæti séu á svæðinu og hafi lagt til að það verði friðlýst. „Þessa finnst manni að sveitastjórnin hefði átt að taka tillit til,“ segir Auður og bendir á að umsögn Skipulagsstofnunnar um framkvæmdirnar, sem vinna vegna rannsóknanna er innifalin í, hafi verið mjög neikvæð. „Og þetta virðir sveitastjórnin að vettugi.“

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir sveitastjórn Árneshrepps virða að …
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir sveitastjórn Árneshrepps virða að vettugi neikvæða umsögn Skipulagsstofnunnar og friðlýsingatillögu Náttúrufræðistofnunnar.

Lögðu til að þyrlur yrðu notaðar við sýnatöku

Ekki sé heldur rétt að framkvæmdirnar sem leyfi var veitt fyrir í gær séu bara vegna rannsókna.  

„Landvernd og fleiri hafa sagt í umsögnum um breytingar á deiliskipulagi sem sveitastjórnin gerði núna í vor að það sem er verið er að gera þarna er bara undirbúningur fyrir virkjanir,“ segir Auður og bendir á að venjulega sé reynt að spilla sem minnstu þegar um rannsóknir er að ræða. „Það eru margar aðferðir sem hægt er að beita til að stunda þessar rannsóknir sem fela ekki í sér að leggja línuvegi upp á þessi óbyggðu víðerni.“ Vegirnir sem nú eigi að fara að leggja verði til reiðu þegar og ef það verður farið í að virkja.

Hún segir Landvernd til að mynda stungið upp á að VesturVerk nýtti þyrlur til að taka sýnin. Fordæmi séu fyrir slíku og til að mynda hafi fyrirtæki sem hefur verið að bora eftir gulli hér á landi beitt þeirri aðferð.

Einnig hafi verið stungið upp á að VesturVerk færði tækin sem þarf til rannsóknanna á svæðið yfir snjó að vetrarlagi. Rannsóknirnar væru svo unnar yfir sumarið og tækjabúnaðurinn síðan fluttur á brott næsta vetur er snjóað hefði að nýju.  „Þá myndi ekki þurfa að rústa þessum óbyggðu víðernum eins og þeir ætla að gera í nafni rannsókna,“ segir Auður.

Álit Skipulagsstofnunar Hvalárvirkjun Árneshreppur
Álit Skipulagsstofnunar Hvalárvirkjun Árneshreppur mbl.is/Kristinn Garðarsson

Verkið bútað niður til að draga úr umfangi

Hið rétta sé að framkvæmdirnar nú séu bara byrjunin á virkjunarframkvæmdum með svo kallaðri  „salami slicing“ aðferð, sem feli í sér að framkvæmdir eru bútaðar niður í litla hluta svo heildarumfang þeirra sé ekki jafn áberandi.

„Það er bara verið að pissa á staurinn  — að merkja sér svæði og valda sem mestri eyðileggingu,“ segir Auður og bætir við að því meiru sem VesturVerk verði búið að eyða í framkvæmdirnar því meiri þrýstingur verði settur á að eitthvað komi út úr verkinu.

Landvernd setti á fót undirskriftasöfnun á vef sínum í febrúar á þessu ári til að hvetja til friðlýsingar á áhrifasvæði Hvalárvirkjunar. Undirskriftalistann ætla samtökin svo að afhenda Umhverfisstofnun og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Að sögn Auðar hafa 3.200 undirskriftir safnast síðan þá, en hún bendir á að samtökin hafi heldur ekki eytt neinu í kynningu.

Listinn verður síðan afhentur fljótlega. „Núna erum við bara að vinna í kapp við tímann því það stendur til að rústa þessu svæði,“ segir hún. Til skoðunar sé svo að kæra framkvæmdaleyfið til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert