Hér á landi telja 97% almennings að bólusetningar séu áhrifaríkar til að koma í veg fyrir sjúkdóma og 99% telja bólusetningar mikilvægar fyrir börn. Aftur á móti eru um 40% aðspurða í vafa um öryggi bóluefna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri alþjóðlegri skoðanakönnun um ýmis heilbrigðismál þar sem meðal annars var spurt um afstöðu fólks til bólusetninga.
Sóttvarnarlæknir segir niðurstöðuna í samræmi við rannsóknir sem gerðar hafa verið hér á landi á undanförnum árum um afstöðu almennings til almennra bólusetninga. Hann segir að þetta sýni einnig að þörf er á betri upplýsingagjöf til almennings um öryggi bóluefna.
Fréttin hefur verið uppfærð
Frakkar eru sú þjóð heimsins sem hefur minnsta trú á bólusetningum, samkvæmt nýrri rannsókn um afstöðu almennings til bólusetninga. Um er að ræða stærstu rannsókn sem hefur verið gerð á afstöðu og trú almennings á bólusetningum.
Hér er hægt að skoða afstöðu Íslendinga
33% Frakka telja að bólusetningar séu ekki öruggar og Frakkland er eina landið í heiminum þar sem meirihlutinn (55%) telur að vísindi og tækni muni fækka störfum en alls tóku yfir 140 þúsund manns þátt í rannsókninni í 144 löndum.
Umsjón með könnuninni, sem var lögð fyrir 15 ára og eldri, höfðu bresk samtök á sviði heilbrigðisþjónustu, Wellcome, og var hún unnin af Gallup á tímabilinu apríl til desember 2018.
Samkvæmt henni hefur fólk sem býr við bestu lífskjörin minnsta trú á bólusetningum og er þetta tengt umræðu um hættu tengda bólusetningum. Hreyfing sem berst gegn bólusetningum nýtur mikilla vinsælda víða á Vesturlöndum en talið er að 169 milljónir barna hafi ekki verið bólusett við mislingum á sjö ára tímabili, frá 2010 til 2017. Um er að ræða fyrstu bólusetningu og þá sem skiptir mestu máli varðandi útbreiðslu sjúkdómsins.
Í Bandaríkjunum hefur mislingatilvikum fjölgað mjög undanfarin misseri og í ár hafa þúsundir greinst með mislinga þar í landi.
Á heimsvísu telja 79% að bólusetningar séu öruggar og 84% telja þær skila árangri. Íbúar Bangladess og Rúanda hafa mesta trú á bólusetningum en tæplega 100% íbúa telja þær öruggar, virkar og mikilvægar fyrir börn.