Lúsmý hindraði róður kringum landið

Að róa á móti straumnum er nokkuð sem Veiga Grétarsdóttir …
Að róa á móti straumnum er nokkuð sem Veiga Grétarsdóttir er orðin þjálfuð í. Ljósmynd/Ágúst Atlason

Lúsmý og veikindi hafa sett strik í róður Veigu Grétarsdóttur síðustu vikuna, en Veiga hefur nú róið rangsælis á kajak í kringum landið síðasta rúma mánuðinn og hefur nú lokið um þriðjungi leiðarinnar.

„Róðurinn er búinn að ganga mjög hægt síðustu dagana. Það er búið að vera leiðinlegt veður og ég fékk einhverskonar sýkingu í augað og mér leið eins og ég væri veik með hita og svoleiðis þannig ég þurfti að fara upp á sjúkrahús.

„Þar vildu þau meina að þetta væri sólarofnæmi en svo kom í ljós að ég var með svona 40 bit eftir lúsmý. Mig grunar meira að segja að þetta í auganu hafi líka verið bit. Þannig ég er ekkert búin að geta sofið og bara búin að róa einn dag síðustu vikuna,“ segir Veiga sem er nú stödd á Suðurlandi. 

Veiga hefur fengið frábært veður það sem af er leiðangursins, …
Veiga hefur fengið frábært veður það sem af er leiðangursins, en hún segist vera við það að fá nóg af sólinni í bili. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var svo slæm af þessu að ég gat ekki sofið og eina nóttina vaknaði ég tvisvar til að fara í kalda sturtu, mig klæjaði svo mikið. Þetta er algjör plága. Svo þurfti ég að taka ofnæmislyf ofan í þetta sem er sljóvgandi þannig ég er bara búin að vera þreytt og orkulaus og slöpp síðustu daga.“

Veiga lagði upp frá Ísafirði þriðjudaginn 14. maí og gerir ráð fyrir að ferðin muni taka tvo til þrjá mánuði til viðbótar. Hún segir að fyrstu þrjá daga ferðarinnar hafi rignt en síðan þá hafi ekki komið dropi úr lofti. Raunar hefur veðurblíðan verið svo mikil að Veiga segist ekki hafa neitt á móti því að fá smá hlé frá sólinni. 

Veiga áætlar að ferðin muni taka um 2 til 3 …
Veiga áætlar að ferðin muni taka um 2 til 3 mánuði til viðbótar. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var búin að vera með sól á hverjum einasta degi í þrjár vikur og það verður rosalega heitt úti á sjó í sólinni þegar maður er í þurrgalla og svo er rosaleg endurspeglun af sjónum. Það væri gott að blanda þessu aðeins. Það er reyndar kannski kostur fyrir mig að árnar skuli þorna aðeins upp, sérstaklega á suðurlandinu, því þá er auðveldara að komast upp í ósana,“ segir Veiga.

Veiga hóf róðurinn aftur í gær eftir erfiðleika síðustu daga og er staðráðin í að láta ekki deigan síga þó á móti blási. Hún silgdi frá Þjórsá að Landeyjarhöfn í gær og markmið dagsins er að halda áfram austur að Vík í Mýrdal. 

„Þetta verður frábært þegar kemur að sigurstundinni,“ segir Veiga hress.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert