Landeigendur meirihluta Drangavíkur á ströndum hafa kært deiliskipulag og framkvæmdaleyfi fyrir fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (ÚUA). Er þess farið á leit að nefndin beiti heimild sinni til að stöðva fyrirhugaðar framkvæmdir á meðan fjallað er um málið.
Sveitastjórn Árneshrepps samþykkti á fundi sínum 12. júní framkvæmdaleyfi fyrir fyrsta hluta virkjanaframkvæmda Vesturverks við Hvalárvirkjun. Álit Skipulagsstofnunnar á áhrifum Hvalárvirkjunnar var einkar neikvætt og þá hafa Landsvernd og önnur náttúruverndarsamtök lagst gegn framkvæmdarleyfinu.
Í tilkynningu landeigenda segir að aðild þeirra að kæru til ÚUA byggi á eignarrétti þeirra að jörðinni Drangavík og vatnsréttindum sem henni fylgja.
„Við höfum enga heimild veitt fyrir virkjanaframkvæmdum á jörðinni. Kröfur okkar um ógildingu ákvarðana byggja á umhverfisvernd,“ segir í erindi landeiganda.
Þá segja landeigendur að Vesturverk og Árneshreppur hafi notað röng landamerki við skipulagningu Hvalárvirkjunar, en þinglýst landamerkjabréf frá 1890 staðfestir að vatnasvið Eyvindarfjarðarvatns sé alfarið innan Drangavíkur. Hafa engar breytingar verið gerðar á umræddum landamerkjum frá árinu 1890.
„Nýting vatnasviðs Eyvindarfjarðarár er sögð vera ein meginforsenda Hvalárvirkjunar. Við meirihlutaeigendur Drangavíkur erum á móti því að Hvalárvirkjun verði reist og höfum ekki í huga að semja við Vesturverk um nýtingu vatnsréttinda okkar í þágu virkjunar. Við viljum að víðerni Ófeigsfjarðarheiðar, vatnsföllin, fossarnir og strandlengjan fái að vera óröskuð um ókomna tíð og náttúran fái að þróast á eigin forsendum,“ segir í erindi landeiganda.
„Hvalárvirkjun mun ekkert gera fyrir mannlíf á Ströndum, heldur þvert á móti eyðileggja þá möguleika sem felast í náttúruvænni uppbyggingu atvinnulífs. Hvalárvirkjun er ekki nauðsynleg til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum og bygging hennar mun að auki leiða til neikvæðra umhverfisáhrifa af háspennulínum.“
Þá segja landeigendur að ekkert samráð hafi verið haft við þá við undirbúning Hvalárvirkjunar eða skipulagsvinnu og að engir aðrir en Vesturverk beri ábyrgð á því að kanna hverjir séu réttir eigendur þeirra auðlinda sem þeir Vesturverk vill fénýta. Hvorki Árneshreppur né Vesturverk hafi nokkru sinni leitað eftir samþykki landeiganda við áformum Vesturverks.
Drangavík er hluti af tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2018 um friðlýsingu víðerna við Drangajökul. Fimmtán einstaklingar og eitt dánarbú eru þinglýstir eigendur jarðarinnar sem er óskipt. Þá standa 10 einstaklingar, eigendur um 70% jarðarinnar, að kærunni til ÚUA.