„Nú kemur í ljós enn ein handvömmin“

Strandir í Árneshreppi.
Strandir í Árneshreppi. mbl.is/Sigurður Bogi

Landvernd segir kæru landeigenda Drangavíkur til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) í dag vera til marks um ófagleg vinnubrögð sem HS Orka, Vesturverk og hreppsnefnd Árneshreppar hafa viðhaft í tengslum við Hvalárvirkjun.

Landeigendur meirihluta Drangavíkur lögðu kæruna fram í dag, en sveita­stjórn Árnes­hrepps samþykkti á fundi sín­um 12. júní fram­kvæmda­leyfi fyr­ir fyrsta hluta virkj­ana­fram­kvæmda Vest­ur­verks við Hvalár­virkj­un.

Álit Skipu­lags­stofn­unn­ar á áhrif­um Hvalár­virkj­unn­ar var einkar nei­kvætt og þá hafa Landsvernd og önn­ur nátt­úru­vernd­ar­sam­tök lagst gegn fram­kvæmd­ar­leyf­inu auk þess sem Náttúrufræðistofnun Íslands lagði það til í apríl 2018 að landið yrði friðlýst.

„Nú kemur í ljós enn ein handvömmin í undirbúningi virkjunarinnar þar sem eigendur vatnsréttinda á hluta svæðisins hafa ekki verið hafðir með í ráðum þegar landi þeirra er ráðstafað vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda,“ segir í bréfi Landverndar.

„Hvalárvirkjun er fjárhagslega óábyrg og aðstandendur og stuðningsmenn hennar virða lög, reglur og faglega ferla að vettugi. Virkjunin er ekki forsenda fyrir bættu raforkuöryggi á Vestfjörðum, til þess eru til margar aðrar áhrifaríkari leiðir sem ekki valda viðlíka spjöllum á íslenskri náttúru. Landvernd krefst þess Vesturverk og HS Orka stöðvi allar framkvæmdir við þessa virkjun sem aldrei hefur verið grundvöllur fyrir.“

Vilja að lífeyrissjóðirnir grípi inn í 

Auður Önnu Magnúsardóttir, framkvæmdarstjóri Landverndar sagði í samtali við mbl.is að hún telji það ólíklegt að leyfisveiting Árneshrepps standist stjórnsýslulög. Verið sé að veita leyfi fyrir framkvæmdir á landssvæði sem sé einfaldlega í eigu annarra.

Landvernd og níu önnur umhverfisverndarsamtök sendu í dag íslenskum lífeyrissjóðum, sem eiga saman meirihluta í HS Orku en Vesturverk er dótturfyrirtæki þess, bréf þar sem sjóðirnir eru hvattir til þess að beita sér gegn eyðileggingu Drangajökulsvíðerna.

Í bréfinu kemur fram að sú víðáttumikla náttúra sem er nánast ósnert í Drangavík, sé nú í hættu vegna mistaka sem gerð voru við rammaáætlun þegar Hvalárvirkjun var sett í nýtingarflokk þrátt fyrir að gögn sem á þeim tíma lágu fyrir, sýni glöggt að ekki voru forsendur fyrir því. Staðfesti mat Skipulagsstofu þetta auk þess sem skýrsla Environice greinir frá því að tekjur sveitarfélagsins yrðu í raun meiri af friðlýsingu en virkjun.

Þá segja samtökin tíu að enn sé tími til að leiðrétta umrædd mistök ef að lífeyrissjóðir í eigu landsmanna grípa í taumana og „forða þjóðinni frá óafturkræfu umhverfisslysi og stöðva þá sóun sem felst í frekari undirbúningi.“

„Við hvetjum því lífeyrissjóðina okkar að íhuga þá stöðu sem þeir eru komnir í sem ábyrgir aðilar í eigu landsmanna. Við hvetjum þá til að fylgja þeirri stefnu sem þeir hafa sett sér og sýni í verki að þeir taki umhverfismál alvarlega. Við teystum því að lífeyrissjóðirnir geri það sem í þeirra valdi stendur sem ábyrgir eigendur HS Orku og þar með dótturfyrirtækis þess Vesturverks sem fengið hefur það framkvæmdaleyfi sem vísað er til hér að framan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert