Ákæruvaldið telur að hæfileg refsing yfir manninum sem ákærður er fyrir að verða tveimur að bana með því að kveikja í einbýlishúsi á Selfossi í október gæti verið allt að 18 ár. Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari benti á það í málflutningi sínum að aldrei hefði nokkur maður verið sakfelldur á Íslandi fyrir tvö manndráp sem hlotist hefðu af sama verknaðinum.
Saksóknarinn fór ekki fram á neina sérstaka refsingu, heldur lagði það í hendur dómara að meta hver refsing mannsins ætti að verða.
Hæfileg refsing konunnar sem einnig er ákærð í málinu, fyrir að hafa ekki gert það sem í hennar valdi stóð til þess að koma þeim tveimur sem voru stödd á efri hæð hússins til hjálpar, sagði saksóknari að væru sex mánuðir í fangelsi, óskilorðsbundnir.
Í málflutningi sínum færði Kolbrún rök fyrir því að maðurinn hefði kveikt í húsinu af ásetningi og sagði það svo gott sem sannað að hann hefði kveikt í gardínum þeim sem tæknideild lögreglu hefur ákvarðað að upptök eldsins megi rekja til. Vísaði Kolbrún til þess að maðurinn hefði í fyrstu samtölum sínum við lögreglu talað um að eldurinn hefði kviknað í gardínunum, án þess að lögregla hefði spurt hann út í það sérstaklega.
Þá sagði Kolbrún manninn hafa vitað af því að tvær manneskjur væru á efri hæð hússins og því væri ekki hægt að segja annað en að manndrápið hefði verið framið með ásetningi – þó ekki hæsta stigi ásetnings, heldur lægra stigi, en ásetningi þó, samkvæmt skilningi laganna.
Kolbrún sagði að ákærði hefði mátt vita að ef húsið myndi brenna, væri það líklegt til þess að valda dauða þeirra tveggja manneskja sem voru á efri hæð þess og gátu enga björg sér veitt. Hún sagði framburð ákærða um að hann hefði ekki munað eftir fólkinu á efri hæðinni ekki vera trúverðugan, þar sem fólkið hefði dvalið á heimili hans í tvær vikur í aðdraganda eldsvoðans.