Meindýraeyðir man eftir fyrsta lúsmýinu

Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir er búinn að vera að eltast …
Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir er búinn að vera að eltast við lúsmý síðan 2013. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir man enn eftir fyrsta tilfellinu hans af lúsmý. „Það var í norðanverðum Grafarvogi árið 2013. Þá kom ég til húsmóður þar og það var í raun hún sem bar kennsl á kvikindið. Hún hafði búið á Norðurlöndunum, ég mætti þarna og hún sagði sem var: Þetta er þetta helvítis lúsmý,“ segir Steinar. 

Hún sagði að vísu ekki lúsmý, heldur skandinavískt orð yfir fyrirbærið, sem eitthvað hefur skolast til með árunum. Þarna var hins vegar lúsmý á ferð og árið var 2013. Og það var ekki fyrr en 2015 sem það hafði breitt úr sér víða um sveitir landsins og alla leið inn í fjölmiðla, en frá þeim tíma eru fyrstu dæmi um orðið í blöðum.

Lúsmý. Fáum líkar þessi gestur. Hann kom fyrst í blöðin …
Lúsmý. Fáum líkar þessi gestur. Hann kom fyrst í blöðin 2015. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lúsmý er komið til að vera, að mati Steinars, sem hefur unnið sem meindýraeyðir frá því 2005 og hefur lagt sérstaka áherslu á kvikindið í störfum sínum. Lúsmýið er mest frá byrjun júní og alveg fram í júlí eða ágúst. Og það er ekki á leiðinni neitt, nema „veðurfarið breytist á verri veginn“ telur Steinar.

Gæti borist til Akureyrar

Þegar Steinar tekur hús eitrar hann fyrst á utanvert húsið, setur eitur á valda staði í kringum það og lætur síðan eitur á vissa staði inni í húsinu. Það bægir varginum að mestu frá.

Fólk sem býr nærri Elliðaá, til dæmis, á hálfpartinn í …
Fólk sem býr nærri Elliðaá, til dæmis, á hálfpartinn í vök að verjast gegn lúsmýinu, þar sem lúsmý fjölgar sé auðveldlega á vatni. mbl.is/Valgarður Gíslason

Hann fer út um allar trissur að eitra fyrir lúsmýinu. „Árið 2013 voru þetta tvö tilfelli í Grafarvoginum og tvö í Mosfellsbænum. Árið á eftir var ég farinn að fara í Hvalfjörð og Kjós. Núna í ár hef ég farið út um nánast allt suðvesturhornið: Reykholt, Gullfoss- og Geysissvæðið, Borgarfjörðinn, Flúðir, Hafnarfjörð. Svo er þetta komið í Voga á Vatnsleysuströnd en ekki alla leið í Keflavík sýnist mér,“ segir hann.

Óvinur lúsmýssins er vindurinn. „Þetta er ekki komið á Selfoss, Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri, ekki Hellu, eða Hvolsvöll. Þar sem er mikið sléttlendi fýkur þetta bara,“ segir Steinar, kjörlendi lúsmýssins er í skógum, dalverpum og lægðum ýmsum. Þannig gæti þetta borist til Akureyrar, þess vegna, telur Steinar.

„Þetta er að éta fólk frekar illa“

Steinar segir misskilnings gæta um það hvernig lúsmýið hagar sér. Stundum hitti maður fyrir hjón þar sem kerling er stokkbólgin en karl við hestaheilsu. „Ég er ekkert bitinn,“ segir sá en Steinar vísar því á bug.

Þar sem er lúsmý, þar bítur lúsmý. „En karlinn er bara ekki að sýna viðbrögð. Hann hefur verið bitin en húðin hans bregst bara ekki eins ofsafengið við,“ segir Steinar.

„Núna er þetta að éta fólk frekar illa. Fólk sem ég hef hitt hefur átt við vanda að stríða einfaldlega í 4-6 vikur eftir að bitin koma,“ segir meindýraeyðirinn.

Steinar Smári er sjálfur með bráðaofnæmi fyrir stungusárum mýflugna.
Steinar Smári er sjálfur með bráðaofnæmi fyrir stungusárum mýflugna. mbl.is

Bent hefur verið á ýmis ráð gegn lúsmýinu, hér er meira að segja sérstök Facebook-síða sem hefur það hlutverk, og Steinar hefur ýmislegt til málanna að leggja. Eitt er að kveikja í kolagrilli á vettvangi því það á að fæla mýið frá. Svo er að kaupa alls kyns efni í apótekum. Svo má nota flugnanet til að verjast og einnig skal muna að hafa ekki krukkur eða fötur í kringum húsið þar sem vatn getur safnast, því vatn þarf lúsmýið til að fjölga sér.

En það er þó þannig, segir Steinar, að „besta ráðið við þessu, ef þú ætlar ekki að láta eitra hjá þér, er að sætta sig við kvikindið. Jafnvel þó sumum finnist það erfitt,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert