Aðaltrúnaðarmaður starfsmanna Rio Tinto í Straumsvík hefur óskað eftir yfirlýsingu frá álverinu um stöðu mála vegna lokunar á kerskála þrjú og ljósbogans sem myndaðist þar.
„Ég óskaði eftir því að það yrði gefin út yfirlýsing til handa starfsmönnum um ástandið og horfur og hvort þessu hættuástandi sem olli því að þeir stoppuðu skála þrjú væri aflokið,“ segir Reinhold Richter aðaltrúnaðarmaður.
Kerskálanum var lokað vegna óróleika í kerjunum en álverið hefur fengið „óvenjulegt“ súrál frá nýjum birgjum, að því er upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi greindi frá. Reinhold bendir á að sama súrál sé í hinum tveimur kerskálunum og vill hann fá að vita hvort reksturinn þar sé í nógu góðu jafnvægi.
Hann hefur óskað eftir upplýsingum um hvort ljósboginn sem myndaðist í kerskálanum í fyrradag hafi myndast í keri eða hvort hann hafi leiðst út á ganginn þar sem starfsemin fer að mestu leyti fram. Einnig óskaði hann eftir því að fá að vita um aðkomu Vinnueftirlitsins að málinu, þannig að farið verði eftir réttum ferlum. „Það liggur í augum uppi að ef þetta er lokað út af öryggisástæðum að öllum sé ljóst hvaða öryggisástæður það voru.“
Reinhold segist hafa upplýsingar um að enginn hafi verið í kerskálanum þegar ljósboginn myndaðist. „Þetta eru um þrír kílómetrar af skálum í heildina og þrjú vinnusvæði í hverjum skála. Þannig að þetta eru 9 kílómetrar í heildina og það eru ekki svo margar manneskjur þarna inni,“ segir hann.