Starfsmaður Vinnueftirlitsins sem hefur eftirlit með álverinu í Straumsvík hafði samband við álverið í gær eftir að svokallaður ljósbogi myndaðist þar í fyrradag.
„Við erum að fá upplýsingar frá þeim um hver staðan er. Við erum að ganga úr skugga um að þau séu að fylgja öllum ferlum hjá sér þannig að þau séu að tryggja öryggi starfsmanna,“ segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.
Hún bætir við að fulltrúar álversins hafi brugðist hratt og örugglega við. „Við erum að fylgjast með framvindunni og eigum í góðum samskiptum við þau. Þetta er hættulegur iðnaður þannig að þau eru með miklar varúðarráðstafanir.“
Aðspurð segir Hanna Sigríður að Vinnueftirlitið hafi ekki áhyggjur af stöðunni í álverinu í Straumsvík að svo stöddu.
Ákveðið var að slökkva á kerskála þrjú í álverinu til að tryggja öryggi starfsmanna. Sama kerskála var einnig lokað í júní árið 2006 vegna straumleysis í skálanum. Til stóð að bjarga að minnsta kosti 40 af kerunum 160 en það tókst ekki. Endurgangsetning keranna hófst á nýjan leik fjórum vikum síðar.
Fram kemur á Vísindavefnum að ljósbogi myndist þegar rafstraumur fer um gas. Við þær aðstæður hitnar gasið mikið. Í ljósboga verði varmamyndun vegna rafstraums til þess að viðhalda rafgasi og er algengt hitastig á milli 20.000 og 30.000 °C.
„Þar sem hitinn í rafgasinu hleypur á tugum þúsunda gráða verður gífurleg geislun frá ljósboganum og allt í næsta nágrenni sviðnar á augabragði áður en straumurinn rofnar aftur,“ segir á Vísindavefnum.
Ljósbogi hefur áður myndast í álverinu. Árið 2001 slösuðust tveir starfsmenn þegar ljósbogi myndaðist við gangsetningu rafgreiningarkers og voru þeir fluttir á sjúkrahús með alvarlega brunaáverka.