Gunnlaugur Snær Ólafsson
Yfirstjórn álversins í Straumsvík hefur boðað til fundar með starfsfólki klukkan 11:15 í dag til þess að fara yfir stöðu mála eftir að kerskála þrjú var lokað í kjölfar þess að ljósbogi myndaðist í lokuðu keri. Þetta staðfestir Reinhold Richter aðaltrúnaðarmaður í samtali við mbl.is.
Hann kveðst ánægður með að það standi til að upplýsa starfsmenn um framhaldið. „Öll svona óvissa er svo erfið starfsfólkinu og það eru margar spurningar ósvaraðar.“ Reinhold hefur óskað eftir yfirlýsingu frá yfirstjórninni um ástandið og horfur og hvort þessu hættuástandi sem olli því að þeir stoppuðu skála þrjú væri aflokið.
Haft hefur verið eftir Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto á Íslandi, að ljósboginn hafi myndast við „gríðarlega óvenjulegar“ aðstæður og að súrálið sé öðruvísi en það sem hafi verið notað síðustu fimmtíu árin.