Sumartónleikar helgaðir sögunni

Hlíf Sigurjónsdóttir frumflytur á Íslandi fiðlusónötu eftir Viktor Urbancic frá …
Hlíf Sigurjónsdóttir frumflytur á Íslandi fiðlusónötu eftir Viktor Urbancic frá 1934 á Sumartónleikum Listasafns Sigurjóns Ólafssonar þriðjudaginn 30. júlí. mbl.is/Hari

Mikil tónlistarveisla er fram undan í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar þar sem vikulegir sumartónleikar eru haldnir alla þriðjudaga fram til 20. ágúst kl. 20.30. Þrennir tónleikar hafa þegar farið fram á safninu, en alls verða tónleikarnir sjö. Hlíf Bente Sigurjónsdóttir fiðluleikari og listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar segir mikla fjölbreytni ráða framboðinu og tekur fram að hún hafi viljað helga sumarið sögunni, en Hlíf er dóttir Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara og ekkju hans Birgittu Spur.

Eftirspurn eftir plássi mikil

Hlíf segir að mikil eftirspurn sé eftir að fá að spila á sumartónleikunum og viðurkennir að erfitt geti verið að velja tónlistarmenn úr þeim umsóknum sem berast enda dagsetningarnar í boði fáar.

„Ég hef oft sagt að við ættum bara að hafa tónleika allt árið,“ segir Hlíf og hlær.

Hún segist gleðjast yfir því hve margir séu orðnir eins konar fastagestir á sumartónleikunum og geri sér ferð á tónleika á hverju sumri.

Hlíf viðurkennir að það geti verið erfitt að vera klassískur tónlistarmaður á Íslandi og ekki sé sjálfsagt að góð mæting sé á klassíska tónlistarviðburði. Segir hún að einn aðaltilgangurinn með tónleikunum sé að búa til tækifæri fyrir vel menntað tónlistarfólk til að koma fram.

„Það eru bara fimmtíu prósent vinnunnar að koma fram í æfingaherberginu. Hin fimmtíu prósentin eru á sviði og það eru bara fáir möguleikar til að halda tónleika á Íslandi nema þú sért tilbúinn til að gefa vinnuna þína endalaust,“ segir hún. „Nú man ég tímana tvenna og að mínu mati er klassíska tónlistin orðin að jaðargrein. Það er eiginlega komið á ábyrgð hvers og eins að ná sér í og hlýða á klassíska tónlist. Aðgengi að annarri tegund tónlistar er svo miklu auðveldara í opinberu miðlunum okkar,“ segir Hlíf, en viðtalið við hana birtist upphaflega í Morgunblaðinu þriðjudaginn 23. júlí. 

Kynntist tónlistinni í kjallara

„Við þurfum að horfast í augu við að þeir sem sækja tónleika á Íslandi eru eldra fólk. Þetta er fólkið sem ólst upp við að hlusta á klassíska tónlist í útvarpinu. Við sækjum í það sem við ölumst upp við að hlusta á og ef börnin hafa ekki aðgengi að klassískri tónlist þá verða ekki lengur hvítir kollar sem koma eftir 30 ár.“

Hlíf spilar sjálf á fjórðu tónleikunum í sumartónleikaröðinni sem haldnir verða þriðjudaginn 30. júlí en þar verða flutt verk eftir tónskáldið Viktor Urbancic sem sjaldan eða aldrei hafa heyrst á Íslandi. Hlíf segist hafa kynnst tónlist Viktors þegar hún vann að þætti um Björn Ólafsson konsertmeistara fyrir Ríkisútvarpið í tilefni af aldarafmæli hans 2017.

„Þá komst ég í kjallara útvarpsins og náði að hlusta á allt sem Björn hafði hljóðritað. Þetta var eins og að fara aftur í tímann. 

Flúði vegna gyðingahaturs

Ég var komin þarna á fyrstu ár uppbyggingar klassískrar tónlistar hér á landi,“ segir Hlíf sem kveðst þar hafa rekist á upptökur með tónlist Viktors.

Hún segir Viktor hafa verið flóttamann í seinni heimsstyrjöldinni vegna þess að kona hans var gyðingur en hann flutti til Íslands 1938 og vann ómetanlegt starf í uppbyggingu tónlistarlífs á landinu.

„Við erum stundum svo upptekin af því að vinna morgundaginn og verða fræg að við gleymum svolítið að hlúa að þeim sem voru og lögðu grunninn að því hvar við erum í dag. Þess vegna vildi ég nota tækifærið á þessum vettvangi, fyrst ég fæ að stjórna, til að koma tónlistinni hans á framfæri,“ segir Hlíf.

Hún bætir við að Viktor hafi til að mynda verið fyrstur til að setja upp stór kórverk á Íslandi með evrópskri tónlist eins og eftir Bach. Að auki segir Hlíf hann hafa verið frábært tónskáld. Hún kveðst hafa heyrt upptöku af fiðlusónötu eftir Viktor í kjallara RÚV en hafi síðar komist að því að hann hefði samið aðra sónötu árið 1934, árið eftir að Viktor og kona hans flúðu frá Þýskalandi vegna gyðingahaturs. Sú sónata verður frumflutt á Íslandi hinn 30. júlí en niðjar Viktors koma sérstaklega til landsins frá Austurríki til að spila á tónleikunum.

Aukatónleikar hugsanlegir

Hlíf segir að þegar séu miðar farnir að seljast á tónleikana sem bera yfirskriftina „Svipmynd af tónskáldinu Viktor Urbancic“. Sérstök kynning verður á tónskáldinu sunnudaginn 28. júlí kl. 16, aukatónleikar mánudaginn 29. júlí kl. 20.30 og tónleikar á hefðbundnum tíma þriðjudaginn 30. júlí kl. 20.30. 

Næstu tónleikar á dagskránni bera yfirskriftina „Tónlist á stríðstímum“ sem Hlíf segir að hafi passað einstaklega vel á eftir fyrri tónleikum. Þar verða flutt verk eftir Claude Debussy, Francis Poulenc og Dmitríj Shostakovitsj sem eru römmuð inn af textum og bréfum tónskáldanna auk frétta líðandi stundar.

„Þetta tengist þemanu um líf fólks á stríðstímum og hvað við getum gert,“ segir Hlíf og nefnir í því samhengi börn á flótta.

Á næstu tónleikum, hinn 13. ágúst, segir Hlíf að áhorfendur verði aftur færðir í nútímann en þar verða meðal annars flutt verk eftir Þuríði Jónsdóttur og Ólöfu Arnalds undir yfirskriftinni „Með sól í hjarta“.

Síðustu tónleikarnir bera yfirskriftina „Ég var sælust allra í bænum“ og eru eins og eins konar aukalag segir Hlíf. Þar verða fluttar klassískar aríur og sönglög sem fjalla um gleði og sorgir ástarinnar.

Hægt er að kaupa miða á tónleikana í safninu eða símleiðis í síma 553-2906. Allar nánari upplýsingar um tónleikana má finna á vefnum lso.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert