„Allir sem eru á móti ofbeldi geta mætt“

Druslugangan árið 2017.
Druslugangan árið 2017. mbl.is/Árni Sæberg

Druslugangan verður gengin í níunda sinn frá Hallgrímskirkju klukkan 14. á morgun. Skipuleggjendur segja undirbúning hafa gengið vel og hvetja hvern þann sem er á móti ofbeldi til að taka þátt. 

„Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel. Við erum búin að vera með viðburði alla vikuna sem hafa gengið bara vonum framar,“ segir Eva Sigurðardóttir sem er í skipulagsteymi göngunnar. 

„Við vorum með panel með ungu fólki þar sem við ræddum lausnarmiðað hvernig hægt er að tækla ofbeldi. Svo var peppkvöldið á miðvikudeginum sem gekk mjög vel. Svo var bíósýning á mánudaginn þar sem við sýndum mynd sem heitir The Bystander Moment sem fjallar meira um forvarnir er eftirmála ofbeldis. Svo í gær vorum við með skiltagerð og hannyrðapönk á Loft hostel sem gekk bara alveg ótrúlega vel, það var ótrúlega skemmtileg stemning sem myndaðist,“ segir Eva. 

„Núna erum við bara á lokametrunum að skipuleggja gönguna á morgun. Við verðum komin við Hallgrímskirkju klukkan tólf og verðum með skiltagerð og varningssölu og klukkan tvö hefst svo gangan þar sem við göngum niður að Austurvelli.“

Ekkert þema í ár

Ræðuhaldarar á Austurvelli verða Sigrún Bragadóttir og Aldís Schram. Síðan munu tónlistarkonurnar Salóme Katrín, Kría og Ingileif troða upp og plötusnúðurinn DJ Dóra Júlía sér svo um að halda uppi stemningunni. 

Í tilkynningu Druslugöngunnar segir að gangan sé til þess að vekja athygli á kynferðisofbeldi í öllum birtingarmyndum og til að færa ábyrgð kynferðisafbrota frá þolendum yfir á gerendur. Oft hefur verið sérstakt þema í tengslum við gönguna en í ár er áherslan lögð á að Druslugangan sé fyrir alla. 

„Í rauninni er ekkert þema í ár. Við vildum svolítið strípa bara þemað okkar og leggja áherslu á að allir geti fundið samastað í göngunni. Allir sem vilja mæta geta mætt og eiga að finna stuðning og samstöðu. Allir geta orðið fyrir ofbeldi og geta þarna fundið stuðning. Allir sem eru á móti ofbeldi geta mætt,“ segir Eva. 

Eva segist gera ráð fyrir svipaðri mætingu og síðustu ár, mörg hundruð druslum. 

„Við höfum alltaf fengið mikinn meðbyr. Fólki finnst mikilvægt að mæta en það hefur verið smá bakslag í baráttunni núna þegar gerendur eru að kæra meiðyrði. Þess vegna er svo mikilvægt að mæta og sýna samstöðu, við þurfum að berjast gegn því líka.“

Skiltagerð fyrir Druslugöngina á Loft Hostel í gær.
Skiltagerð fyrir Druslugöngina á Loft Hostel í gær. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert