Segja steingervinga á framkvæmdasvæðinu

Hvalá Niðri við ós í Árneshreppi.
Hvalá Niðri við ós í Árneshreppi. mbl.is/Sigurður Bogi

Náttúruverndarsamtökin Ófeig greina frá því í dag að fundist hafi órannsakaðir steingervingar á framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar. Um sé að ræða trjábolaför af trjátegund sem ekki finnist lengur hér á landi og samkvæmt lögum megi ekki raska slíkum jarðminjum.

Ófeig hafa sent Náttúrufræðistofnun Íslands bréf um steingervingana. Í samtali við Fréttablaðið segir Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og stjórnarmaður samtakanna að hópur á hans vegum hafi fundið þrjú mismunandi svæði með steingervingum.

Í bréfinu kemur fram að hvergi sé minnst á steingervingana í matsskýrslu VesturVerks en áður hefur komið fram að andstæðingum virkjunar þykir kafli VesturVerks um umhverfismat ekki langur né ítarlegur.

Bent er á að í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands 12. ágúst 2016 um frummatsskýrslu sé þess sérstaklega getið að jarðminjar hefðu ekki verið kannaðar og skortur væri á gögnum þar að lútandi.

Ítarlega er rakið í bréfinu að samkvæmt náttúruverndarlögum sé óheimilt að nema brott eða losa steingervinga af fundarstað og að slíkt rask sé refsivert. 

Bréfið má nálgast í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka