Verktakar sem eru að leggja virkjanaveg úr Ingólfsfirði yfir í Ófeigsfjörð á Ströndum eru komnir um kílómeter frá landamörkum Seljaness og landsins í eigu Árneshrepps í Ingólfsfirði. Þeir eru því að nálgast Seljanes og hluti landeigenda þar segir að þangað inn leggi þeir ekki veg, alltént ekki fyrr en fengist hefur niðurstaða í þremur málum þar sem verið er að kanna lögmæti aðgerðanna.
Guðmundur Arngrímsson, talsmaður hluta landeigenda í Seljanesi, segir að hann og hans fólk áskilji sér rétt til að meina verktökum aðgang að landinu þar til tekinn sé vafi af því að aðgerðirnar séu réttmætar.
„Þeir eru komnir um kílómeter frá okkur. Við höfum sett upp skilti á Hellranesi, landamörkum Seljaness og lands Árneshrepps í Ingólfsfirði, þar sem áréttað er að allt jarðrask á jörðinni sé bannað án samráðs við landeigendur,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.
Verktakarnir eru ekki að störfum nú um helgina við að leggja veginn en halda samkvæmt áætlun áfram eftir verslunarmannahelgi. Ef þeir færa sig inn á land Seljaness segir Guðmundur að hann muni leita skynsamlegra leiða til að hindra þá framkvæmd.
„Ef þeir hlusta ekki rýnum við bara í þær heimildir sem við höfum til að kalla til lögreglu. Borgarar hafa ákveðin réttarúrræði til að vernda eigur sínar,“ segir Guðmundur og bætir því við að sú staðreynd eigi ekki síður við í þessu máli en öðrum.
„Við erum ekki að fara í neinn slag við þessa verktaka, en við áskiljum okkur rétt til þess að meina þeim að fara um landið okkar til þess að vera með jarðrask á því. Þeim er frjálst að fara um veginn en ekki ef ætlunin er að raska landinu,“ segir Guðmundur, sem talar fyrir hluta landeigenda jarðarinnar í Seljanesi.