Strunsaði út úr Hallgrímskirkju

Ferðamenn sækja margir Hallgrímskirkju heim.
Ferðamenn sækja margir Hallgrímskirkju heim. mbl.is/Árni Sæberg

Bandarískur ferðamaður sem heimsótti Hallgrímskirkju fyrr í dag skildi ekki sáttur við eftir að hafa gengið fram á regnbogafána sem blasti við söfnuðinum á kórtröppum kirkjunnar.

Varð honum starsýnt á fánann og rauk svo út úr kirkjunni og fram í Guðbrandsstofu. Þar hitti hann fyrir kirkjuvörð og var samtal þeirra nokkurn veginn á þessa leið, eftir því sem greint er frá á síðu Hallgrímskirkju:

„Afsakið, er þetta regnbogafáni í kirkjunni?“ mun ferðamaðurinn hafa spurt og játti kirkjuvörðurinn því.

„Þetta er ekki kristin kirkja!“

„Hvers vegna myndi kirkja hafa svona lagað?“ spurði hann í kjölfarið og fékk þau svör varðarins að ást guðs væri fyrir allt fólk, burtséð frá kynhneigð þess eða bakgrunni.

„Jesús myndi aldrei samþykkja það,“ fullyrti sá bandaríski þá. „Jú, það myndi hann gera,“ svaraði kirkjuvörðurinn en uppskar þvert nei ferðamannsins.

„Ég er hræddur um að við munum þurfa að vera ósammála um það,“ sagði kirkjuvörðurinn og reyndi þannig að leysa úr deilunni.

„Þetta er ekki kristin kirkja!“ svaraði Bandaríkjamaðurinn, bætti við að þetta væri hneisa og strunsaði með það út.

Á síðu kirkjunnar er þess að lokum getið að hún standi með fjölbreytileika og litríki lífsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert