Vilja kalla inn kafara til leitar

Leitað hefur verið árangurslaust að ferðamanninum meðfram Þingvallavatni í dag.
Leitað hefur verið árangurslaust að ferðamanninum meðfram Þingvallavatni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leitin að ferðamanninum við Þingvallavatn hefur ekki skilað árangri. Verið er að kanna í samráði við sérsveit ríkislögreglustjóra möguleika á að kalla inn kafara til þess að leita við inntak Steingrímsstöðvar, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi.

Sjá mátti þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir Þingvallavatni í dag, þar sem áhöfn hennar aðstoðaði við leitina úr lofti.

Þyrla Landhelgisgæslan yfir Þingvallavatni.
Þyrla Landhelgisgæslan yfir Þingvallavatni. mbl.is/Auðun

Leitað hefur verið við bakka Þingvallavatns og er talið að verkefnum björgunarsveitanna ljúki í dag, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Hann segir um 50 sjálfboðaliða hafa komið að verkefnum dagsins og að framhald leitar verði ákveðið á fundi með lögreglunni í lok dags.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgunarsveitir voru kallaðar út í gær í kjölfar þess að tilkynnt var um hlut fljótandi í Þingvallavatni. Við athugun þyrlu frá Landhelgisgæslunni kom í ljós að um mannlausan bát var að ræða. Fannst síðar bakpoki í vatninu.

Lögreglan á Suðurlandi staðfesti í dag að um erlendan ferðamann væri að ræða og hafði hann gist á tjaldsvæðinu að Vatnskoti við norðurenda vatnsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert