Nærri þriðjungur hinsegin fólks upplifir óþægilegar og nærgöngular spurningar frá samstarfsfólki og stjórnendum á vinnustað sínum, svo sem tengdum kynlífi, kynfærum og hjúskaparstöðu.
Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem unnin var í samstarfi Hinsegin daga og Nasdaq, en hún er sú fyrsta sem framkvæmd hefur verið um málefni hinsegin fólks á íslenskum vinnumarkaði. 30% hinsegin svarenda höfðu upplifað nærgöngular spurningar og 39% höfðu upplifað fordómafullar og óviðeigandi sögur, brandara eða yfirlýsingar frá samstarfsfélögum á síðastliðnum tveimur árum.
Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar í heild sinni á hádegisfundi Hinsegin daga og Nasdaq í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, en fundurinn hefst kl. 11:30 og tekur þar m.a. til máls Richard Taylor, varaforseti mannauðsdeildar Nasdaq-kauphallarinnar.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, sem framkvæmd var á netinu og 355 einstaklingar svöruðu, telja 15% hinsegin fólks sig hafa færri tækifæri á atvinnumarkaði samanborið við þá sem ekki eru hinsegin, en 71% telja sig hafa sömu tækifæri.
Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, segir að á Íslandi sé lítil sem engin opinber umræða um hinsegin fólk á vinnumarkaði og að mikilvægt hafi verið að framkvæma könnun með það að markmiði að fá einhverjar vísbendingar um upplifun hinsegin fólks. Niðurstöðurnar komi um margt heim og saman við niðurstöður kannanna sem framkvæmdar hafi verið erlendis.
„Niðurstöðurnar renna auk þess stoðum undir margt af því sem hinsegin fólk hefur rætt sín á milli í gegnum tíðina. Það er því kannski ekki margt óvænt í niðurstöðunum heldur hljóma þær í raun kunnuglega, ef svo má segja, þó auðvitað hafi maður upp að vissu marki vonað að staðan væri betri hér.“