Vilja að stöðvunarkrafan verði endurskoðuð

Framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar.
Framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Ljósmynd/Aðsend

Hluti landeigenda að Seljanesi í Ingólfsfirði hafa óskað eftir endurskoðun á úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna framkvæmdastöðvunar á Ófeigsfjarðarvegi. Úrskurðarnefnd hafnaði því í júlí að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan kæra landeigenda væri til umfjöllunar hjá nefndinni. Telja landeigendur nú að í ljósi nýrra upplýsinga sé rétt að endurskoða úrskurðinn. 

„Við höfðum rökstuddan grun um að þessi ákvörðun Úrskurðarnefndar væri ekki byggð á réttum forsendum og svo hafa fullt af nýjum gögnum komið til. Þá sérstaklega um hvernig framkvæmdunum hefur verið framundið,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson, talsmaður hluta landeigenda að Seljanesi. 

„Við gerum athugasamdir við það hvernig framkvæmdinni reiðir áfram og með hvaða hætti hún er gerð. Svo fundum við dómafordæmi og yfirlýsingar frá Hreppsnefndinni sem tók af allan vafa um að það ætti ekki að fara í gegnum Seljanes.“

Ófeigsfjarðarvegur.
Ófeigsfjarðarvegur. Ljósmynd/Aðsend

„Við væntum þess að þetta verði tekið fyrir strax í vikunni vegna þess að framkvæmdir eru yfirvofandi og og allt jarðrask sem fram fer inn í Seljanesi er náttúrulega bara óheimilt. Þeir sem bera ábyrgð á því hljóta að þurfa að svara fyrir þær afleiðingar.“ 

Hafa safnað gögnum í viku

Framkvæmdir vegna fyrirhugaðar Hvalár­virkj­unar hafa verið gríðarlega um­deildar í Árnes­hreppi og víðar. Fyr­ir liggja sjö kær­ur hjá Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála vegna fram­kvæmd­ar­leyf­is sem hrepps­nefnd Árnes­hrepps veitti Vest­ur­Verki í byrj­un sum­ars.

Hafa bæði land­eig­end­ur á svæðinu sem og ýmis nátt­úru­vernd­ar­sam­tök kært fram­kvæmd­ar­leyfið og meðal ann­ars borið fyr­ir sig meinta laga­lega van­kanta á meðferð máls­ins. 

Ófeigsfjarðarvegur.
Ófeigsfjarðarvegur. Ljósmynd/Aðsend

Þá hef­ur hluti land­eig­enda Dranga­vík­ur kært fram­kvæmd­ar­leyfið og deili­skipu­lag Árnes­hrepps til Héraðsdóms Reykja­vík­ur. Hef­ur verið fall­ist á flýtimeðferð í mál­inu. 

Guðmundur segir landeigendur hafa unnið að því að safna gögnum máli sínu til stuðnings fyrir Úrskurðarnefndinni undanfarna daga. 

„Við höfum unnið að því að safna að okkur gögnum núna í heila viku. Við erum með þarna sex atriði sem liggja fyrir og óskum á grundvelli þeirra eftir því að ákvörðun Úrskurðarnefndar sem hafnaði stöðvun á framkvæmdum verði tekin til endurskoðunar,“ segir Guðmundur. 

Framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi ekki fengið fullnægjandi mat

Á meðal þeirri sex atriða sem Guðmundur vísar til og koma fram í endurskoðunarbeiðni landeigenda er álit Skipulagsstofnunar, fyrri úrskurðir Úrskurðarnefndar, fundargerðir hreppsnefndar Árneshrepps og svör hreppsnefndar við athugasemdum landeiganda á Seljanesi. 

„Það kemur greinilega í ljós í þessum skjölum og yfirlýsingum hreppsnefndar bara frá því um áramótin, það er ekki lengra síðan, að hreppsnefndin fullyrðir með opinberum yfirlýsingum að það eigi ekki að fara í vegframkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi og að ef til virkjunar kæmi þá séu þau framkvæmdarleyfi sem komi í kjölfarið skilyrt við samþykki landeigenda.“ 

Framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi.
Framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi. Ljósmynd/Aðsend

Þá segir Guðmundur framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi ekki hafa verið teknar sérstaklega til skoðunar við umhverfismat og álit Skipulagsstofnunnar. Það álit þurfi að fá svo að meta megi þau umhverfisáhrif sem vegaframkvæmdirnar hafi. 

„Þessi framkvæmd á Ófeigsfjarðarvegi var aldrei metin sérstaklega í matsskýrslum eins og hefði átt að gera miðað við dómafordæmi Úrskurðarnefndarinnar þegar hún dæmdi í máli um viðhald á Kjalvegi. 

„Þá úrskurðaði nefndin mjög afdráttarlaust að þegar vegstæðið bæði hækkar og breikkar og umferð breytist, þó að vegurinn liggi í sama vegstæði, þá er þetta nýr vegur sem þarf að fara í gegnum ákveðnar síur. Þetta er mjög skýrt og afdráttarlaust og við teljum að þessi vegur, Ófeigsfjarðarvegur, eigi að vera tekinn fyrir á sama hátt.“

Liggur á að taka málið fyrir

Aðspurður hvað landeigendur geri verði stöðvunarkröfunni hafnað í annað sinn segir Guðmundur það verða að koma í ljós. 

„Við föllumst ekki á rök Úrskurðarnefndarinnar þegar hún hafnar stöðvunarkröfunni. Til að byrja með förum við þess á leit við nefndina að hún endurskoði kröfuna í ljósi nýrra gagna. Ef að hún stendur við að hafna kröfunni þá tökum við bara stöðuna í samráði við okkar lögfræðinga og skoðum hvort við skjótum þeirri ákvörðun til héraðsdóms. 

„Það ríður á því að taka þetta fyrir sem allra fyrst vegna þess að ef fram fer sem horfir eru bara einhverjir dagar í að þeir fari að ryðja þarna með jarðýtum yfir víðerni við Drangajökul. Þetta eru yfirstandandi framkvæmdir og framkvæmdarleyfið er enn í gildi svo það má ekki seinna vera. 

„Við teljum vera það mikla annmarka á allri málsmeðferðinni og útgáfu framkvæmdarleyfisins og innihaldi að við teljum að Úrskurðarnefndinni beri að endurskoða þetta í ljósi þess sem fram hefur komið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka