„Við eigum vænt safn af hinsegin bókum í Borgarbókasafninu og erum búin að setja það allt í bókabílinn,“ segir Guðríður Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri hjá Borgarbókasafninu.
Bókabíll Borgarbókasafnsins, Höfðingi, tekur þátt í Hinsegin dögum þetta árið og hefur verið tæmdur af því efni sem hann er vanur að hýsa og fylltur af hinsegin bókmenntum.
Höfðingi verður staddur í Tjarnargötu, við hlið Ráðhúss Reykjavíkur, út vikuna og opinn gestum og gangandi á milli kl. 13 og 18 til skoðunar og útláns bóka.
„Síðan tekur hann þátt í Gleðigöngunni á laugardaginn. Þar verður hann fulltrúi Borgarbókasafnsins, þar sem áhersla er lögð á óheft aðgengi að alls konar bókum og efni,“ segir Guðríður.
Höfðingi mun þannig keyra niður Skólavörðustíg ásamt fleiri farartækjum. Guðríður segir bílinn verða vel skreyttan en líklega með rólegra yfirbragði en aðra sem þátt taka í Gleðigöngunni.
„Við erum ekki alveg búin að útfæra þetta, hvort það verður tónlist eða upplestur úr bók. Það gæti verið eitthvert fjör, en enginn uppi á þaki,“ segir Guðríður að lokum og vonar að þetta verði fyrsta þátttaka bókabílsins í Hinsegin dögum af mörgum.