Tillaga sem lýtur að því að VR fari í samstarf með Neytendasamtökunum í baráttunni gegn smálánum var samþykkt með miklum stuðningi á stjórnarfundi VR í kvöld, að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR. Markmið samstarfsins er skýrt, að stöðva starfsemi smálánafyrirtækja.
„Næstu skref eru að bretta upp ermar og fara af fullum krafti gegn þeim sem bera ábyrgð á stöðu þessa fólks og þessari hörku. Við munum hvetja fólk til að greiða alls ekki af lánunum nema fyrir liggi nákvæm sundurliðun á öllum kostnaði og höfuðstól, sem er bara lögum samkvæmt,“ segir Ragnar og heldur áfram:
„Við munum skoða réttarstöðu þessara einstaklinga bæði gagnvart innheimtufyrirtækinu Almennri innheimtu og sömuleiðis Sparisjóði Strandamanna og öðrum sem fóstra þessa innheimtu fyrir þessi glæpafyrirtæki,“ segir Ragnar.
Hann segir þá sem standa að innheimtunni bera mikla ábyrgð. „Ég persónulega set þetta á par við það að rukka inn fíkniefnaskuldir og spyr hvort það sé það sem þau ætli að fara að rukka næst. Staða þessara einstaklinga og harkan í þessu er svo svívirðileg.“
Spurningar Ragnars eru tvær. „Ég krefst þess að stjórn og sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Strandamanna svari því hvort þetta sé sú leið sem þessi sjóður vill fara, hvort hann ætli að taka að sér að innheimta fíkniefnaskuldir næst. Ég spyr líka viðskiptavini Sparisjóðs Strandamanna hvort þeir telji sig virkilega vilja vera í viðskiptum við slíkt fyrirtæki sem fóstrar svona viðskipti og svona glæpastarfsemi á siðferðislegum forsendum,“ segir Ragnar.