Dómsmálaráðuneytið hefur staðfest úrskurð kjörnefndar um að vísa eigi frá kæru Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, um ógildingu borgarstjórnarkosninga síðasta árs. Vigdís staðfestir þetta í samtali við mbl.is, en Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Málið snýst um notkun Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands sem Persónuvernd gerði athugasemdir við og Vigdís kærði svo í framhaldi. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafði áður vísað kæru Vigdísar frá.
„Þetta barst mér með ábirgðapósti í vikunni og ég er búin að vera að skoða úrskurðinn og undra mig á þessu öllu saman,“ segir hún.
„Ráðuneytið tekur undir með Persónuvernd að þetta hafi verið lögbrot og nokkur alvarleiki í málinu, en getur svo ekki aðhafst neitt vegna þessa sjö daga ákvæðis um kærufrest.“ Fram kemur í úrskurði ráðuneytisins að málið verði ekki tekið til efnislegra meðferðar þar sem kærufresturinn hafi verið liðinn.
Málið hefur farið fram og til baka í dómskerfinu og sjálf segist Vigdís enn vera þeirrar skoðunar að kærufrestur hafi tekið að líða þegar úrskurður Persónuverndar hafi verið birtur. „Hvorki sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, kærunefndin sem hann skipaði, né dómsmálaráðuneytið fallast hins vegar á það,“ bætir hún við.
„Ég spyr því til hvers er eftirlitsiðnaðurinn á Íslandi ef það er ekki hægt að sækja þá sem lögbrot fremja til ábyrgðar?“
Vigdís segist enn vera að skoða málið og dómstólar séu sú eina leið sem sé eftir innanlands, nú þegar hún hafi tæmt allar kæruleiðir. „Þetta mál er fordæmalaust, því kosningakæra hefur aldrei farið svona langt. Þannig að þetta er fordæmisgefandi fyrir framhaldið og ég tel að það þurfi að breyta kosningalögum.“