Aldrei hafa fleiri atriði verið skráð til þátttöku í Gleðigöngu Hinsegin daga, sem leggur af stað frá Hallgrímskirkju kl. 14 í dag. Þaðan verður gengið eftir Bankastræti, Lækjargötu og Fríkirkjuvegi og mun gangan svo enda við Hljómskálagarðinn þar sem taka við glæsilegir útitónleikar.
Ljóst er að veðurguðirnir munu ekki spilla fyrir gleðinni í dag. Léttskýjað er í Reykjavík og hitinn er 13 gráður.
Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður verður á sínum stað í göngunni, á sérhönnuðum trukk. Er ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is leit við hjá honum í gær var verið að undirbúa prufukeyrslu á bílnum.
Gestum hefur verið bent á að mæta tímanlega í miðborgina til þess að taka þátt í Gleðigöngunni. Sérstök upphitun verður fyrir gönguna á Klapparstíg, sem málaður er í regnbogans litum, og stendur hún yfir á milli 12 og 14. Þar mun tónlist óma.
Búist er við miklum fjölda fólks í miðbænum og mun Strætó hafa nokkra aukavagna tiltæka til þess að bregðast við álagi sem kann að myndast á leiðakerfinu. Að auki verða eftirfarandi breytingar gerðar á akstri, vegna götulokana í miðbænum, sem sjá má mynd hér neðst í fréttinni.
Milli kl. 10:00-18:00 munu eftirtaldar leiðir Strætó aka hjáleiðir:
Leiðir 1, 3 og 6 munu aka Snorrabraut til og frá Hlemmi.
Leiðir 11, 12 munu aka um Snorrabraut og Gömlu Hringbraut, til og frá Hlemmi.
Leið 13 mun aka um Snorrabraut og Gömlu Hringbraut, til og frá Hlemmi. Á leið sinni að Öldugranda mun leiðin ekki geta ekið um Hofsvallagötu.
Óvirkar biðstöðvar milli kl. 10:00-18:00:
Sæbraut/Frakkastígur, Sæbraut/Vitastígur, Harpa, Lækjartorg, Ráðhús Reykjavíkur, Fríkirkjuvegur, Ráðhús Reykjavíkur, Menntaskólinn í Reykjavík, Arnarhóll/Lækjartorg, Hofsvallagata/Hávallagata (í átt að Öldugranda).