„Stórkostleg viðurkenning á málstaðnum“

Land­eig­end­ur hluta Selja­ness hafa komið fyr­ir skilti þar sem tekið …
Land­eig­end­ur hluta Selja­ness hafa komið fyr­ir skilti þar sem tekið er fyr­ir allt jarðrask. Vegurinn sé þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Vega­gerðin ger­ir ekki at­huga­semd við þá kröfu land­eig­enda í Ing­ólfs­firði um að frest­un réttaráhrifa, þ.e. að fram­kvæmd­ir við veglagn­ingu í firðinum verði hætt á meðan úr því fæst skorið hvort Vega­gerðin hafi heim­ild til að ráðstafa veg­in­um, sem land­eig­end­ur telja sinn.

Guðmund­ur Hrafn Arn­gríms­son, einn land­eig­enda, seg­ir að hér sé á ferð stór­kost­leg viður­kenn­ing á málstað þeirra. Fjöl­marg­ar frétt­ir hafa verið flutt­ar af því að verktak­inn Vest­ur­verk vinni nú að því, á veg­um HS Orku, að bæta veg að Hvalá þar sem til stend­ur að virkja ána, svo hann sé í stakk bú­inn til að flytja efnivið í virkj­un­ina sem á að reisa.

Aðeins áfanga­sig­ur

Vega­gerðin lít­ur svo á að hún sé í rétti til að fram­selja HS Orku um­sjá yfir veg­in­um, en því mót­mæl­ir hluti eig­enda þess lands sem veg­ur­inn fer um. Land­eig­end­ur hafa kært ákvörðun Vega­gerðar­inn­ar til sam­gönguráðuneyt­is­ins en nokkra mánuði gæti tekið að fá úr því skorið. Því  fóru land­eig­end­ur þess á leit við ráðuneytið að réttaráhrif­um yrði frestað og fram­kvæmd­ir því úr­sk­urðaðar ólög­mæt­ar þar til það fæst á hreint hver fer með völd yfir veg­kafl­an­um.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson landeigandi í Ingólfsfirði.
Guðmund­ur Hrafn Arn­gríms­son land­eig­andi í Ing­ólfs­firði. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Vega­gerðin af­henti ráðuneyt­inu á föstu­dag álit sitt á kær­un­um tveim­ur. Mót­mæl­ir hún því sjón­ar­miði land­eig­enda að veg­ur­inn sé í eigu land­eig­enda, en ger­ir, sem fyrr seg­ir, ekki at­huga­semd við kröfu þeirra um frest­un réttaráhrifa.  Guðmund­ur seg­ir að í því fel­ist viður­kenn­ing á því að vafi leiki á um eign­ar­haldið á veg­in­um.

HS Orka og Vest­ur­verk hafa fram á miðviku­dag til að skila inn áliti sínu á frest­un­inni, en að svo búnu mun sam­gönguráðuneytið úr­sk­urða í mál­inu. „Mér finnst borðleggj­andi að ekki gangi að fram­kvæma í landi þar sem áhöld leika um hver fer með eign­ar­hald,“ seg­ir Guðmund­ur. Hann á því ekki von á öðru en að réttaráhrif­um verði frestað.

Hefja efnis­töku í fjör­unni

Árnes­hrepp­ur veitti fyrr í mánuðinum Vest­ur­verki heim­ild fyr­ir sitt leyti til efnis­töku úr námu í Ing­ólfs­firði og hef­ur fyr­ir­tækið heim­ild til að sækja þangað allt að 3.500 rúm­metra, 3,5 millj­ón­ir lítra, af efni sem nota á í veg­inn. Var það niðurstaða bæði Fiski­stofu og Orku­stofn­un­ar að efn­istak­an væri ekki háð leyf­um frá stofn­un­un­um, en það er veitt á þeim for­send­um að um opna námu sé að ræða og því þurfi ekki að grípa til frek­ari leyf­is­veit­inga. Guðmund­ur dreg­ur það í efa og seg­ir að svæðið hafi ein­ung­is nýst land­eig­end­um til efnis­töku í smá­skömmt­um; ekk­ert í lík­ingu við það magn sem nú sé áætlað að taka. „Þetta er eng­in náma held­ur bara fjöru­borð með mikið af æðar­fugli.“

Úr fjöruborðinu þar sem Vesturverki er heimilt að sækja efnið.
Úr fjöru­borðinu þar sem Vest­ur­verki er heim­ilt að sækja efnið. Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert