„Stórkostleg viðurkenning á málstaðnum“

Land­eig­end­ur hluta Selja­ness hafa komið fyr­ir skilti þar sem tekið …
Land­eig­end­ur hluta Selja­ness hafa komið fyr­ir skilti þar sem tekið er fyr­ir allt jarðrask. Vegurinn sé þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Vegagerðin gerir ekki athugasemd við þá kröfu landeigenda í Ingólfsfirði um að frestun réttaráhrifa, þ.e. að framkvæmdir við veglagningu í firðinum verði hætt á meðan úr því fæst skorið hvort Vegagerðin hafi heimild til að ráðstafa veginum, sem landeigendur telja sinn.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, einn landeigenda, segir að hér sé á ferð stórkostleg viðurkenning á málstað þeirra. Fjölmargar fréttir hafa verið fluttar af því að verktakinn Vesturverk vinni nú að því, á vegum HS Orku, að bæta veg að Hvalá þar sem til stendur að virkja ána, svo hann sé í stakk búinn til að flytja efnivið í virkjunina sem á að reisa.

Aðeins áfangasigur

Vegagerðin lítur svo á að hún sé í rétti til að framselja HS Orku umsjá yfir veginum, en því mótmælir hluti eigenda þess lands sem vegurinn fer um. Landeigendur hafa kært ákvörðun Vegagerðarinnar til samgönguráðuneytisins en nokkra mánuði gæti tekið að fá úr því skorið. Því  fóru landeigendur þess á leit við ráðuneytið að réttaráhrifum yrði frestað og framkvæmdir því úrskurðaðar ólögmætar þar til það fæst á hreint hver fer með völd yfir vegkaflanum.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson landeigandi í Ingólfsfirði.
Guðmundur Hrafn Arngrímsson landeigandi í Ingólfsfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegagerðin afhenti ráðuneytinu á föstudag álit sitt á kærunum tveimur. Mótmælir hún því sjónarmiði landeigenda að vegurinn sé í eigu landeigenda, en gerir, sem fyrr segir, ekki athugasemd við kröfu þeirra um frestun réttaráhrifa.  Guðmundur segir að í því felist viðurkenning á því að vafi leiki á um eignarhaldið á veginum.

HS Orka og Vesturverk hafa fram á miðvikudag til að skila inn áliti sínu á frestuninni, en að svo búnu mun samgönguráðuneytið úrskurða í málinu. „Mér finnst borðleggjandi að ekki gangi að framkvæma í landi þar sem áhöld leika um hver fer með eignarhald,“ segir Guðmundur. Hann á því ekki von á öðru en að réttaráhrifum verði frestað.

Hefja efnistöku í fjörunni

Árneshreppur veitti fyrr í mánuðinum Vesturverki heimild fyrir sitt leyti til efnistöku úr námu í Ingólfsfirði og hefur fyrirtækið heimild til að sækja þangað allt að 3.500 rúmmetra, 3,5 milljónir lítra, af efni sem nota á í veginn. Var það niðurstaða bæði Fiskistofu og Orkustofnunar að efnistakan væri ekki háð leyfum frá stofnununum, en það er veitt á þeim forsendum að um opna námu sé að ræða og því þurfi ekki að grípa til frekari leyfisveitinga. Guðmundur dregur það í efa og segir að svæðið hafi einungis nýst landeigendum til efnistöku í smáskömmtum; ekkert í líkingu við það magn sem nú sé áætlað að taka. „Þetta er engin náma heldur bara fjöruborð með mikið af æðarfugli.“

Úr fjöruborðinu þar sem Vesturverki er heimilt að sækja efnið.
Úr fjöruborðinu þar sem Vesturverki er heimilt að sækja efnið. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert