Mennirnir tveir sem handteknir voru við komu Norrænu til Seyðisfjarðar 1. ágúst, grunaðir um að hafa flutt verulegt magn af fíkniefnum til landsins, komu einnig til landsins með Norrænu í fyrrasumar. RÚV greinir frá.
45 kíló fundust af sterkum fíkniefnum, kókaíni og amfetamíni, við leit í bifreið mannanna við komu þeirra með Norrænu í byrjun ágúst.
Fram kemur í frétt RÚV að tvímenningarnir, sem eru með rúmenskt og þýskt ríkisfang, hafi komið til Íslands með Norrænu í fyrrasumar á sömu skilríkjum og nú og á sama bílnum og fíkniefnin voru falin í nú.
Lögregla verst allra frétta vegna málsins en segir að rannsóknin sé viðamikil og unnin í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld. Fréttastofa RÚV hefur heimildir fyrir því að grunur sé um að mennirnir hafi einnig haft fíkniefni meðferðis við komuna til landsins í fyrra. Þá hafi annar maðurinn komið flugleiðis til Íslands, að minnsta kosti einu sinni, á síðustu misserum.
Mennirnir voru úrskurðaðir í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald 16. ágúst.