Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði Reykjavíkur gagnrýndi framúrkeyrslu Sorpu á fundi ráðsins í morgun og lögðu til að gerð yrði óháð úttekt á henni. Þannig lægi fyrir að um einn og hálfan milljarð króna vantaði í fjárhagsáætlun. Tillagan er svohljóðandi:
„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að innri endurskoðun verði falið að gera óháða úttekt á málefnum Sorpu hvað varðar fjárfestingar og framúrkeyrslu þeirra. Nú er ljóst að það vantaði um einn og hálfan milljarð króna í fjárhagsáætlun og margvíslegt virðist hafa gleymst. Það er rannsóknarefni að kanna hvernig svona mörg mistök geti átt sér stað sem nú leiðir til þess að borgarbúar fá háan bakreikning eftir á.“
Þá gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði til stæði að veðsetja útsvarstekjur Reykjavíkurborgar til þess að Sorpa gæti tekið lán vegna umræddrar framúrkeyrslu. Ekki væri ásættanlegt að borgin ábyrgðist nýjar skuldir Sorpu án slíkrar úttektar. Var eftirfarandi bókað á fundi ráðsins að ósk fulltrúa sjálfstæðismanna:
„Hér er farið fram á að veðsetja útsvarstekjur Reykjavíkurborgar svo Sorpa geti tekið lán vegna framúrkeyrslu upp á einn og hálfan milljarð króna. Engar haldbærar skýringar eru fyrir því hvernig þetta gat gerst og kallar það á óháða úttekt. Eðlilegast er að fela innri endurskoðanda borgarinnar slíka úttekt og leggja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins það til á þessum fundi. Ekki er forsvaranlegt að samþykkja að borgin gangist í ábyrgð fyrir nýjum skuldum Sorpu án þess að málið sé skoðað í kjölinn.“