Íslenskt efnahagsumhverfi er heilbrigt, jöfnuður óvíða meiri og staða ríkissjóðs traust. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um Ísland, sem birt var í dag, en skýrslur af þessu tagi eru birtar á tveggja ára fresti.
Í skýrslunni, sem Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, kynnti ásamt Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra og Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, kemur fram að lífskjör á Íslandi séu með því besta sem þekkist meðal aðildarríkja OECD.
Byggist það á miklum hagvexti undanfarin ár með litlu atvinnuleysi, lítilli verðbólgu og jákvæðum ytri skilyrðum. Á sama tíma hafi umgjörð hins opinbera verið styrkt og fjármálastjórnin einkennst af varfærni og lækkun skulda. Staða hins opinbera sé því sterk og sjálfbær.
OECD spáir 0,2% hagvexti á þessu ári og 2,2% á því næsta.
Helstu tilmæli OECD lúta að umbótum í menntamálum og ríkisrekstri. Þar er meðal annars fjallað um að forgangsraða í innviðauppbyggingu, auka fjárfestingu í vegum, flutningskerfi rafmagns og gagna. Taka ætti upp veggjöld til að stýra eftirspurn og til reksturs á vegakerfinu.
Efla ætti heilsugæsluna og auka hliðvörslu að sérfræðilæknum. Auka ætti greiðsluþátttöku í sjúkrahúskostnaði en draga úr henni annars staðar í heilbrigðiskerfinu.
Hækka ætti kolefnisskatta og breikka skattstofninn með því að skattleggja losun iðnaðar og landbúnaðar. Tengja ætti styrki í landbúnaði við sjálfbæra landnotkun og umhverfisvæna framleiðslu frekar en magn.
Varðandi menntaþáttinn beinir OECD því til íslenskra stjórnvalda að auka þurfi gæði kennslu. Það sé hægt að gera meðal annars með aukinni starfsþjálfun kennara og einstaklingsmiðaðri endurmenntun þeirra.