Stjórnmálamönnum nauðsynlegt að styðjast við fleiri mæli­kv­arða

Angel Gurria, framkvæmdastjóri OECD.
Angel Gurria, framkvæmdastjóri OECD. mbl.is/Eggert

„Á heildina litið hafið þið góða sögu að segja,“ segir Angel Gurria, framkvæmdastjóri OECD, sem staddur er hér á landi í þeim tilgangi annars vegar að taka þátt í ráðstefnunni „Að mæla árangur með hagvexti og hamingju“ sem haldin er í Háskóla Íslands í dag. Hins vegar liggur leið hans í fjármála- og efnahagsráðuneytið í dag þar sem hann kynnir OECD Economic Survey of Iceland, úttekt sem unnin er og kynnt á tveggja ára fresti. Gurria segir það stjórnmálamönnum nauðsynlegt að styðjast við fleiri mælikvarða á velsæld heldur en hina hefðbundnu.

Ráðstefnan er haldin af forsætis-, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, OECD og Wellbeing Economy Governments, þ.e. Skotlandi og Nýja Sjálandi. Á dögunum gaf nefnd forsætisráðherra út skýrslu um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði. Þar eru upptaldir 39 mælikvarðar til þess að auðvelda stjórnvöldum að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu og styðja við stefnumótun og ákvarðanatöku.

„Hingað til hefur aukinn hagvöxtur þótt eftirsóknarverður í tengslum við aukna velsæld, en fólk hélt að velsæld yrði sjálfkrafa til við hagvöxt og ef framleiðni væri meiri,“ segir Gurria. „Nú vitum við að þegar ójöfnuður er mikill, þá stöðvast hagvöxtur. Við vitum líka að ef stjórnarstefna byggist ekki á velsæld, þ.e.a.s. ekki afleiddri velsæld, heldur velsæld sem upphafspunkti, þá er hún ekki mikils virði,“ segir hann og nefnir að í dag liggi fyrir skýr dæmi um afleiðingar ójöfnuðar. „Fólk verður reitt og óhamingjusamt,“ segir Garria, en tekur fram að Ísland sé líklega vont dæmi til að taka um ójöfnuð. „Ísland er það land sem hefur einna lægstan Gini-stuðul og hér er lítill ójöfnuður almennt. Hér er launajöfnuður og munur hámarks- og lágmarkslauna er ekki svo mikill. Á vissan hátt er hér jafnréttissamfélag og þess vegna er við hæfi að ríki eins og Ísland kalli eftir fundi um velsældarhagkerfi,“ segir hann.

Gurria segir það hlutverk OECD að mæla með skynsamlegum leiðum við stefnumótun ríkja, en hann segir ójöfnuð hafa vaxið gríðarlega í löndum OECD eftir efnahagshrunið 2008. OECD hafi fylgst náið með í kjölfarið. „Við hugsuðum með okkur: Við vitum hver óvinurinn er, við þekkjum vandamálin og sjúkdómsgreininguna, en hvað gerum við í stefnumótun? OECD er ekki hugveita, heldur hreyfiafl sem stingur upp á leiðum til þess að fara í stefnumótun. Niðurstaðan var stefna um hagvöxt fyrir alla. Stefna þar sem einblínt var á heilbrigðismál, þ.e.a.s. aðgengi, gæði og kostnað við slíka þjónustu, menntun, með sömu mælikvörðum og færni, með sömu mælikvörðum. Á því sviði horfðum við líka til þess hvaða færni er spurn eftir á tækniöld,“ segir hann. Þá hafi verið horft til stjórnvalda, gagnsæis og spillingar hjá hinu opinbera auk aðgengis fólks að tækifærum, þ.e. hvað varðar atvinnu og menntun varðar, færni og aðstæður á vinnumarkaði. „Síðan eru það kynjajafnréttismál. Oft er mismunun gegn konum ómeðvituð og óviljandi. Það þarf að horfa til þeirra sem minna mega sín, þ.e. fátækra á öllum aldursstigum, en það þarf líka að horfa til velsældar þeirra sem yngri eru, eldri, innflytjenda og fatlaðra,“ segir Gurria sem nefnir að álitamál tengd velsæld séu í raun alltumlykjandi. Einn mælikvarði dugi ekki til þess að setja fingur á velsæld í einu ríki og aðstæður séu mismunandi í ríkjum OECD.

Nánar er rætt við Gurria í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert