Meirihluti borgarstjórnar samþykkti í kvöld að gangast í ábyrgð fyrir láni hjá Lánasjóði sveitarfélaga fyrir Sorpu að fjárhæð 990 milljónir króna til fimmtán ára, til að fjármagna viðbótarkostnað við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi auk nauðsynlegs tækjabúnaðar.
Borgarfulltrúar meirihlutans samþykktu tillöguna, auk borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins en aðrir flokkar minnihlutans greiddu atkvæði á móti.
Sorpa gerði á stjórnarfundi 2. september sl. breytingar á fjárfestingaáætlun sinni til næstu fjögurra ára eftir að í ljós komu mistök við gerð síðustu fjárfestingaáætlunar. Haft var eftir Birni H. Halldórssyni, framkvæmdastjóra Sorpu, að mistökin hefðu verið óheppileg. Á stjórnarfundi Sorpu var einnig bókað að fara þyrfti yfir verkferla félagsins og var formanni og varaformanni stjórnar falið að fá óháðan aðila til að gera úttekt á starfsemi félagsins og leggja tillögur þar að lútandi fyrir næsta fund stjórnar.
Borgarfulltrúar tókust á um málið í sal borgarstjórnar í kvöld, líkt og um önnur mál, og úr varð að samþykkt var með 13 atkvæðum gegn tíu að gangast í ábyrgð fyrir láninu, alls að fjárhæð 990 milljónir króna, til 15 ára.
Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn málinu og lagði fram eftirfarandi bókun:
„Hér er farið fram á að veðsetja útsvarstekjur Reykjavíkurborgar svo SORPA geti tekið lán vegna framúrkeyrslu upp á einn og hálfan milljarð króna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast alfarið gegn því að veita veð í útsvarstekjum skattgreiðenda í Reykjavík vegna lausataka í rekstri byggðarsamlagins og greiða atkvæði gegn því. Bæjarráð Seltjarnarness neitaði að gangast í ábyrgð fyrir láni til Sorpu vegna framúrkeyrslunnar og telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins rétt að borgarstjórn geri slíkt hið sama.“