Ósátt við skýringar Sorpu

Á losunarstöð Sorpu.
Á losunarstöð Sorpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við frestuðum afgreiðslunni á að ábyrgjast frekara lán, þar til við erum að minnsta kosti búnir að fá að vita hvað fór úrskeiðis þannig að hægt sé að koma í veg fyrir að þetta geti gerst aftur,“ segir Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs Seltjarnarness.

Ráðið ákvað á síðasta fundi sínum að það vildi bíða eftir niðurstöðu úttektar, sem stjórn Sorpu bs. ætlar að biðja um, um ástæður þess að viðbótarkostnaður hefur komið fram við tvö verkefni á vegum byggðasamlagsins, áður en samþykkt yrði að bærinn ábyrgðist lán upp á 990 milljónir króna hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Sú samþykkt er skilyrði þess að lánveitingin geti gengið eftir, þar sem öll sveitarfélögin sem eiga hlut í Sorpu þurfa að samþykkja að ábyrgjast hana.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Magnús Örn að ráðið hafi ekki verið sátt við þær skýringar sem það fékk frá forráðamönnum Sorpu um ástæður þess að lánveitinguna þurfti.

Segir Magnús að annars vegar sé um að ræða dæmigerða framúrkeyrslu fjárfestinga þegar kemur að opinberum rekstri og hins vegar að það gleymdist að gera ráð fyrir kostnaði við allan tækjabúnað í viðbyggingu. „Og það er ekki ásættanleg skýring án þess að því fylgi hver beri ábyrgðina,“ segir Magnús. Hann segir að það gangi ekki upp að byggðasamlög geti komið aftur til eigenda sinna með skýringar á borð við að það hafi „láðst“ að gera ráð fyrir kostnaði. Þetta sé því eðlilegt aðhald af hálfu sveitarfélagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert