Þrjár flugfreyjur Icelandair veiktust og þurftu súrefni í flugi Icelandair í síðustu viku. Ein leitaði til bráðamóttöku eftir lendingu. Frá þessu var greint í hádegisfréttum RÚV.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem veikindi starfsmanna um borð í vélum félagsins koma upp en fimm flugfreyjur og flugþjónar íhuga að höfða mál gegn Icelandair vegna veikinda sinna.
Lögmaður þeirra segir að Icelandair hafni því að veikindin megi rekja til lítilla loftgæða. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við mbl.is í síðasta mánuði að ekki hefðir tekist að sýna fram á orsakatengsl á milli loftgæða í flugvélum og heilsufarsvandamála þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir.
Sex mál sem tengjast veikindum flugfreyja um borð í vélum Icelandair eru til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa þessa stundina.
Nokkuð var fjallað um veikindi flugliða hjá Icelandair á árinu 2016, en þá komu tugir veikindatilfella upp og þó nokkur mál rötuðu inn á borð rannsóknarnefndar samgönguslysa. Trúnaðarlæknir Icelandair sagði við mbl.is sumarið 2016 að veikindi hefðu gert vart við sig í mörgum vélum og við margs konar kringumstæður.