Rannsókn á veikindum beinist að hreyflum

Þrjár flugfreyjur þurftu súrefni í flugi og var ein óvinnufær.
Þrjár flugfreyjur þurftu súrefni í flugi og var ein óvinnufær.

Rannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa á veikindum flugfreyja í Boeing 767-300-flugvél Icelandair frá því í janúar í fyrra beinist að hreyflum og hreyflaviðhaldi. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu um málið. Þar segir enn fremur að tvö svipuð mál hafi verið sameinuð rannsókninni.

Málið er rakið í skýrslunni þar sem fram kemur að í byrjun janúar í fyrra hafi vél Icelandair verið snúið aftur til Keflavíkur vegna veikinda flugfreyja um borð.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa var þá þegar með nokkur önnur sambærileg mál til rannsóknar vegna veikinda áhafna. 

Við rannsókn kom í ljós að þrjár flugfreyjur veiktust í fluginu auk þess sem ein til viðbótar fann til vægra einkenna. Þær þrjár sem veiktust þurftu súrefni og var ein þeirra óvinnufær í fluginu. Læknir um borð sinnti umönnun þeirrar sem var óvinnufær.

Rannsóknarnefndinni barst tilkynning þegar flugvélin var enn á leið til baka og gafst tækifæri til að taka á móti vélinni og taka ýmis efnasýni um borð strax að lokinni lendingu. Nefndinni hafði ekki gefist kostur á slíku í fyrri rannsóknum.

Nefndin skoðar hvort starfsumhverfi flugfreyja tengdist veikindunum í Boeing 767-vélum og beinist rannsókn að hreyflum og hreyflaviðhaldi. 

Síðastliðið haust var greint frá veikindum flugfreyja um borð í vélum Icelandair. Þá var haft eftir Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, að flugfélagið tæki þátt í svonefndri FACTS-rann­sókn á veg­um evr­ópsku flu­gör­ygg­is­stofn­un­ar­inn­ar EASA, sem snúi að loft­gæðum í farþega­rými flug­véla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert