„Ekki talið að þetta hafi veruleg áhrif“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Hari

„Við höfum reynt að leggja mat á það. Það er álit fólks og okkar að öllum líkindum verði áhrifin ekki mikil. Ekki talið að þetta hafi veruleg áhrif, hvorki á stöðugleika né almenning. Það er þó þannig að það hafa fá lönd sem standa jafnvel og við lent á svona lista. Fordæmin eru ekki fyrir hendi,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra spurð hvaða afleiðingar það hafi ef Ísland fari á gráan lista, alþjóðlega fram­kvæmda­hóps­ins FATF, yfir ríki sem þykja ekki hafa gripið til full­nægj­andi að­gerða gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögn­un hryðju­verka.  

Að öllum líkindum verður greint frá ákvörðun alþjóðlega fram­kvæmda­hóps­ins FATF á morgun.

Frá árinu 2018 hafa íslensk stjórnvöld unnið hörðum höndum að því að bregðast við athugasemdum FATF, að sögn Áslaugar. Í september gerði FATF sex athugasemdir. Fimm atriði hafa verið uppfyllt að fullu og unnið er að innleiðingu sjöttu athugasemdarinnar. Það er innleiðing á nýju svokölluðu peningaþvættiskerfi innan embætti lögreglunnar. 

„Það er verið að innleiða það. Það tekur ákveðinn tíma og því verður lokið í maí á næsta ári,“ segir hún. Allar áætlanir um innleiðingarferlið hafa verið lagðar fyrir hópinn. „Þetta er afar lítið mál miðað við þær athugasemdir sem við fengum árið 2018. Og miðað við alla þá vinnu sem hefur verið lagt í,“ segir Áslaug. 

Spurð hvort reynt verði að flýta innleiðingarferlinu á kerfinu, segir hún að nú þegar sé verið að reyna að flýta því eins og hægt er. Kerfið var keypt um síðustu áramót og það tekur alla jafna um eitt ár að innleiða það sem þykir eðlilegur tími, að sögn Áslaugar. „Þetta er  fullkomnasta peningaþvættiskerfi sem völ er á,“ útskýrir hún. 

„Mikill hugur fylgir máli“ 

„Að mínu mati, hvort sem niðurstaðan verði að við förum á þennan gráa lista eða ekki, er það þannig að íslensk stjórnvöld hafa með öllum þessum áætlunum og aðgerðum sýnt fram á mikla vinnu og mikill hugur fylgir máli í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,“ segir hún.  

Frá því athugasemdir FATF bárust hafa til að mynda verið skipaður nýr eftirlitsaðili innan embætti ríkisskattstjóra, ráðist hefur verið í miklar breytingar á lögum og reglusetningum, ný heildarlög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármunum hryðjuverka, upplýsir Áslaug. 

„Ef það kemur til listunarinnar munum við vinna hörðum höndum að því að FATF nýti það tækifæri til að endurskoða stöðu Íslands,“ segir hún. Spurð hvort markmiðið með því að setja Ísland á grá listann sé að skapa víti til varnaðar segir hún að engar málefnalegar ástæður séu sjáanlegar fyrir því að setja Ísland á listann miðað við þær athugasemdir sem eftir standa.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert