„Það sem við viljum ekki er óvissa“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/​Hari

„Við skulum sjá hvernig málinu lyktar áður en við fullyrðum of mikið. En það er augljóst að við þurftum að gera verulegar úrbætur en við teljum líka að við höfum verið að gera það,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is, en eins og fram kom í Fréttablaðinu í morgun þykir margt benda til þess að Ísland lendi í lok vikunnar á gráum lista alþjóðlega framkvæmdahópsins FATF yfir ríki sem þykja ekki hafa gripið til full­nægjandi að­gerða gegn peninga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka. Fundur á vegum hópsins hefur staðið yfir þessa vikuna og sitja fulltrúar dómsmálaráðuneytisins hann fyrir hönd Íslands.

„Samstarfið innan FATF er dómsmálaráðuneytismál. Hins vegar höfum við verið að vinna með þétt með dómsmálaráðuneytinu síðan í apríl 2018 en þá komst nefnd á vegum FATF að það væru ýmis mál út af standandi á Íslandi sem þyrfti að setja í sérstaka athugun. Síðan þá höfum við átt samstarf við dómsmálaráðuneytið til þess að hraða meðferð þessara mála og endaði með því, eins og við sögðum í fréttatilkynningunni um daginn, að í september komst þessi nefnd að því að það væru ennþá út af standandi nokkur atriði og við höfum verið að vinna þann lista áfram niður,“ segir Bjarni enn fremur.

Aðgerðirnar alltof harkalegar

Fjármálaráðherra segir íslensk stjórnvöld líti svo á að „þó að þarna sé um að ræða alvarlega málaflokka þá séu þetta smávægileg atvik sem út af standi í dag og undir það hefur verið tekið af stórum hópi ríkja innan FATF að þetta séu smávægileg atriði sem út af standi og að þetta séu alltof harkalegar aðgerðir.” Það eru einkum stjórnvöld í Bandaríkjunum með stuðningi Bretlands sem vilji að Ísland verði sett á gráa listann en fram kemur í frétt Fréttablaðsins að þau vilji setja víti til varnaðar.

„Við skulum sjá hvernig þetta fer,“ segir Bjarni spurður um þetta. Spurður hvaða atriði standi út af segir Bjarni fyrst og fremst um tæknileg atriði að ræða. Til að mynda skráningar og utanumhald á haldlögðum munum, aðgengi stjórnvalda að upplýsingum um raunverulega eigendur og leiðir til þess að tryggja greitt aðgengi að slíkum upplýsingum.

Óvíst með mögulegar afleiðingar

Spurður um mögulegar afleiðingar þess ef Ísland fer á gráa listann segir hann: „Það er ekki gott að gera sér grein fyrir því nákvæmlega hvaða afleiðingar þetta mun í raun og veru hafa. En við höfum unnið hörðum höndum að því að uppfylla þær kröfur sem þetta samstarf kallar eftir og teljum að við höfum staðið okkur vel frá því að þetta mál kom upp með þessum hætti í apríl 2018.” Ekkert vestrænt opið markaðshagkerfi hafi lent á þessum lista.

„Það sem við vitum er að það gerðist lítið þegar Serbía fór á þennan lista á sínum tíma. En það sem við viljum ekki er óvissa. Það er aðallega það sem við erum að reyna að forðast. Það er erfitt að segja fyrir um það nákvæmlega hvaða afleiðingar þetta kann að hafa,“ segir fjármálaráðherra. Hins vegar virðist allir sammála um að komi til þess að Ísland lendi á gráa listanum séu allar líkur á að landið fari inna skamms aftur af listanum. „Ég held ég geti sagt á fyrri hluta næsta árs.”

Ekki talið raunverulegt vandamál

Spurður hvort einhver ákveðin mál hafi valdið því að þessi staða er komin upp segir Bjarni svo ekki vera. Þannig haldi ekkert ríki því fram að um sé að ræða raunverulegt vandamál á Íslandi heldur sé einungis um það að ræða að utanumhald þyki ekki hafa verið nægjanlega þétt sem skapað hafi hættu á að eitthvað gæti gerst sem hafi þó ekki gerst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert